Tryggi kjósandinn ekki lengur til

Emmanuel Macron, sitjandi forseti Frakklands á fundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel …
Emmanuel Macron, sitjandi forseti Frakklands á fundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel á fimmtudaginn var. Hann þykir líklegasti sigurvegari forsetakosninganna. AFP/John Thys

Hiti er tekinn að færast í kosningabaráttuna í Frakklandi. Fyrri umferð kosninganna verður haldin 10. apríl og sú seinni tveimur vikum síðar.

Mótframbjóðendur sitjandi forseta, Emmanuel Macron, eru að reyna að ná athygli fjölmiðla í miðjum stríðsátökum Rússa og Úkraínu, þar sem Macron hefur verið áberandi fyrir bæði símasamskipti við Pútín og núna síðast í átaki til að bjarga íbúum Maríupol frá yfirvofandi hungursneyð og að koma þeim frá borginni í samvinnu við Grikki og Tyrki.

Í samtali við France 3 sjónvarpsstöðina um frekar snautlega kosningabaráttu sagði Macron að „enginn myndi skilja það ef hann væri á kosningaskónum í miðju stórstríði, þegar það þyrfti að taka ákvarðanir sem hefðu áhrif á borgara landsins“.

Samkvæmt kosningaspám er Macron talinn líklegasti sigurvegari kosninganna.

Líklegt þykir að Marine Le Pen, sem er á enda hægri kvarða stjórnmálanna muni mæta Macron 10. apríl, eins og hún gerði fyrir fimm árum. En keppinautur hennar á hægri vægnum, Eric Zemmour, íhaldskonan Valerie Pecresse og vinstri maðurinn Jean-Luc Melechon eru öll að vonast til að komast í kappræður seinni umferðar 24. apríl.

Hvað gerist mun ákvarðast á næstu tveimur vikum, sagði Adelaide Zulfikarpasic hjá skoðanakönnunarfyrirtækinu BVA í samtali við AFP-fréttaveituna í dag.

Eric Zemmour var með kosningafund í París í dag.
Eric Zemmour var með kosningafund í París í dag. AFP/Julien De Rosa

Um helgina voru mótframbjóðendur Macron með kosningafundi. Fyrrverandi pistlahöfundurinn og sjónvarpsmaðurinn Eric Zemmour var með útifund nálægt Eiffel-turninum og voru þar þúsund manns saman komnir veifandi franska fánanum.

Hann hvatti stuðningsmenn sína til að vera kraftmikla í skilaboðum sínum um mikilfengleik gamla Frakklands og var óhress með innflytjendur í landinu. „Við höfum enn 14 daga og það er heil eilífð,“ sagði hann og hélt því fram að hann væri eini alvöru hægrisinnaði frambjóðandinn.

Marine Le Pen í kosningaheimsókn til Guadeloupe í Karabíska hafinu …
Marine Le Pen í kosningaheimsókn til Guadeloupe í Karabíska hafinu í gær, en eyjan er undir franskri stjórn. AFP/Cedrick Isham Calvados

Ekki þykir hann þó líklegur til árangurs, þar sem hann mælist nú með 10% stuðning, meðan Marine Le Pen hefur 20% og Macron er nálægt 30%. Le Pen reyndi að halda stillingu sinni þegar stuðningsmenn hennar, og þar með talin frænka hennar Marion Marechal, yfirgáfu hana fyrir harðakjarnatalið í Zemmour.

Hennar aðferð var að reyna að ná sambandi við Frakka með fjölda heimsókna og að sýna að hún væri bæði hefðbundnari og skilvirkari frambjóðandi en Zemmour. „Áherslur Eric Zemmour eru harkalegar í orði en afar innihaldslitlar á meðan ég er með tilbúið uppkast af lögum sem tekur á málum múslima og innflytjenda,“ sagði hún í samtali við Le Journal du Dimanche í gær.

Bæði Zemmour og Le Pen hafa verið sökuð um rasisma og síðast var það Zemmour þegar hann sagði að flestir eiturlyfjasalar í þekktu eiturlyfjahverfi Parísar væru frá Senegal og þá ætti að reka úr landi samstundis, sem olli reiði sendiherra Senegal í París.

Á meðan Zemmour og Le Pen berjast um atkvæði kjósenda lengst til hægri, talar Macron fyrir lögum og reglu og íhaldskonan Valerie Pecresse hefur átt í vandræðum með að ná athygli og ekki hjálpaði jákvætt Covid-próf kosningabaráttu hennar. Fyrir innrás Rússa í Úkraínu þótti hún helsti keppinautur Macron.

Kjósendur í dag eru óútreiknanlegir

Jean-Luc Melechon hefur mesta fylgið á vinstri vængnum, eða 12-15%, og hann var með kosningafund í hafnarborginni Marseille þar sem hann sagði stuðningsmönnum sínum að hann myndi komast í aðra umferð kosninganna.

„Við munum tala um alvarlega hluti, ekki fantasíur peningamanna eða rasískar fantasíur hinna,“ sagði hann og vísaði þar til Macron og Le Pen. Aðrir frambjóðendur á vinstri vængnum eru ekki líklegir til ávinninga með fylgi undir fimm prósentum, eins og sósíalistinn og borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo, sem mælist bara með 2% fylgi.

Skýrendur í Frakklandi sjá breytingu í þróun franskra stjórnmála, sem hafa hingað til skipst í mjög skýrar hægri og vinstri línur. „Hinn hefðbundni franski kjósandi sem kaus af skyldurækni og var tryggur einum stjórnmálaflokki eða stjórnmálamanni er ekki lengur til,“ sagði Anne Muxel stjórnandi Rannsóknarstofu stjórnmála í París.

„Kjósendur eru miklu sjálfstæðari, hafa persónulegra samband við stjórnmálin og eru óútreiknanlegri,“ bætti hún við og sagði að meirihluti franskra kjósenda teldi að stjórnmálamenn landsins væru ekki að beita sér fyrir hagsmunum kjósenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert