Rússneski auðkýfingurinn Roman Abramovich, eigandi breska knattspyrnufélagsins Chelsea, hefur sést á samningafundi sendinefnda Rússlands og Úkraínu um fiðaviðræður í Istanbúl í Tyrklandi.
Á myndefni sem sýnt hefur verið í tyrkneskum miðlum, sést til Abramovich til sætis við hlið Ibrahim Kalin, talsmanns Erdogans, forseta Tyrklands, með heyrnatól á höfði þar sem hlusta má á túlk.
Hann situr þó ekki við aðalborðið, þar sem sendinefndirnar sjálfar sitja.
Samkvæmt fréttaflutningi í Tyrklandi hefur Kalin haft milligöngu um aðkomnu auðkýfingsins að friðarviðræðum við úkraínsku sendinefndina.
Viðvera Abramovich er sögð gefa til kynna að hann sé enn að beita sér með einhverjum hætti fyrir samningum.
Í gær bárust fréttir af því að ýmislegt hafi bent til þess að eitrað hafi verið fyrir Abramovich fyrr í mánuðinum þegar hann ferðaðist til Kænugarðs í Úkraínu til að liðka fyrir friðarviðræðum.