Ákvörðun Rússa um að draga úr hernaðarumsvifum í grennd við úkraínsku höfuðborgina Kænugarð, markar „meiriháttar“ stefnubreytingu. Ekki er um að ræða skammtíma aðgerð heldur er þessi breyting líklega til lengri tíma.
Þetta hefur Jim Sciutto fréttamaður CNN eftir tveimur háttsettum bandarískum embættismönnum sem hann nefnir ekki á nafn.
Í tísti fréttamannsins kemur fram að Rússar séu nú að bregðast við misheppnuðum hernaðaraðgerðum í norðurhluta Úkraínu. Bandaríkin hafa þegar tekið eftir hreyfingu rússneskra herliða á svæðinu.
Breaking: Russia is beginning to withdraw some forces from around the Ukrainian capital Kyiv, in what the US assesses is a “major” strategy shift, two senior US officials tell me. US is already observing movements underway of Russian Battalion Tactical Groups (BTGs) 1/
— Jim Sciutto (@jimsciutto) March 29, 2022
Friðarviðræður milli úkraínsku og rússnesku sendinefndanna fóru fram í Istanbúl í Tyrklandi í dag. Árangur þeirra hefur vakið mikla athygli og hefur viðræðunum meðal annars verið lýst sem einu stærsta framfaraskrefi frá því að stríðið milli ríkjanna tveggja hófst.
Samkvæmt upplýsingum rússnesku sendinefndarinnar munu Rússar draga úr hernaðarumsvifum í norðurhluta Úkraínu. Var þetta talið mögulegt í ljósi þess að verið er að undirbúa samninga þess efnis að Úkraína verði hlutlaust ríki.
Þá var einnig lagður grundvöllur að viðræðum milli þjóðarleiðtoga ríkjanna tveggja í viðræðunum í dag.