Réttað yfir einum af „Bítlum“ Ríkis íslams

El Shafee Elsheikh.
El Shafee Elsheikh. AFP/Sýrlandsher

Val á kviðdómi hófst í dag í réttarhöldum yfir meintum liðsmanni hóps innan hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, þekktum sem „Bítlarnir“.

El Shafee Elsheikh, 33 ára, er sakaður um að aðild að morðum á bandarísku blaðamönnunum James Foley og Steven Sotloff, auk hjálparstarfsmannanna Peters Kassig og Kayla Mueller.

Búist er við því að málflutningur í réttarhöldunum hefjist á morgun.

Elsheikh og annars breskur ríkisborgari, Alexanda Amon Kotey, 37 ára, voru handteknir í janúar 2018 af hersveitum Kúrda í Sýrlandi þegar þeir reyndu að flýja til Tyrklands.

Þeir voru framseldir til bandarískra hersveita í Írak og þaðan var flogið með þá til Virginíu-ríkis í Bandaríkjunum árið 2020. Þar áttu þeir yfir höfði sér ákærur vegna gíslatöku, aðildar að morði á bandarískum ríkisborgurum og fyrir stuðning við erlend hryðjuverkasamtök.

Samsett mynd af James Foley, Steven Sotloff, Peter Kassig og …
Samsett mynd af James Foley, Steven Sotloff, Peter Kassig og Kayla Mueller. AFP

Kotey játaði sekt sína árið 2021 og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Samkvæmt samningi þarf hann að dúsa í 15 ár í bandarísku fangelsi og verður eftir það framseldur til Bretlands þar sem hann á yfir höfði sér frekari ákærur. 

Elsheikh ákvað að andmæla ákærunum og réttarhöldin yfir honum fara fram í alríkisdómstól í borginni Alexandríu í Virginíu.

Pyntingar og afhöfðanir

Fjögurra manna hryðjuverkasella með Kotey og Elsheikh innanborðs var kölluð „Bítlarnir“ af þeim sem voru teknir sem gíslar vegna bresks hreims þeirra. Hópurinn er sakaður um að hafa tekið þátt í ráni á að minnsta kosti 27 manns í Sýrandi á árunum 2012 til 2015.

„Bítlarnir“ eru sagðir hafa pyntað og myrt fórnarlömb sín, þar á meðal afhöfðað þau, og Ríki íslams birti myndbönd af morðunum í áróðursskyni.

Leiðtogi hópsins, Mohamed Emwazi, þekktur sem „Jihadi John“, var drepinn í drónaárás Bandaríkjanna í Sýrlandi árið 2015. Fjórði „Bítillinn“, Aine Davis, situr í fangelsi í Tyrklandi eftir að hafa verið fundinn sekur um hryðjuverk.

Kotey var kallaður „Ringo“ af gíslunum á meðan Elsheikh var nefndur „George“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka