Segjast ætla að draga úr hernaðarumsvifum

Viðræður milli sendinefndanna fóru fram í Istanbúl í dag.
Viðræður milli sendinefndanna fóru fram í Istanbúl í dag. AFP/Murat Cetin Muhurdar

Friðarviðræður milli sendinefnda Rússlands og Úkraínu, sem hófust í Istanbúl í Tyrklandi fyrr í dag, hafa reynst „þýðingarmiklar“. Rússar hafa samþykkt að draga úr hernaðarumsvifum og eru fulltrúar sendinefndanna sammála um að búið sé að leggja grundvöll fyrir þjóðarleiðtoga ríkjanna að ræða saman í eigin persónu.

Samkvæmt upplýsingum frá rússnesku sendinefndinni munu Rússar draga verulega úr hernaðarumsvifum í norðurhluta Úkraínu, þar á meðal í grennd við höfuðborgina Kænugarð.

Var þetta skref talið mögulegt í ljósi undirbúnings samnings um hlutlausa stöðu Úkraínu, að sögn Alexander Fomin aðstoðarvarnarmálaráðherra Rússlands.

Vladimír Medinskí, aðalsamningamaður rússnesku sendinefndarinnar, sagði að viðræðurnar í dag hefðu verið þýðingarmiklar og að tillögur Úkraínumanna yrðu lagðar fyrir Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Leiðtogarnir gætu hist

Friðarviðræðurnar hafa einnig greitt götuna svo forsetar ríkjanna tveggja geti hist augliti til auglitis til að ræða málin frekar.

„Árangur fundarins í dag er nægur til að leiðtogarnir geti hist,“ segir Davik Arakhamía, aðalsamningamaður úkraínsku sendinefndarinnar.

Medenskí tók einnig undir orð úkraínska starfsbróður síns.

„Eftir þýðingarmiklar viðræður í dag höfum við komið okkur saman um og lagt til lausn, sem gerir leiðtogum ríkjanna kleift að hittast og á sama tíma geta utanríkisráðherrar einnig samþykkt sáttmálann,“ segir Medenskí.

„Með því skilyrði að samningurinn verði gerður fljótt og að komist verði að nauðsynlegri málamiðlun, mun möguleikinn á að semja um frið færast nær,“ bætti hann við.

Þjóðarleiðtogarnir hafa einungis hist einu sinni áður í persónu, en það var árið 2019 í París. Í gær sagði Sergei Lavrov rússneski utanríkisráðherrann að fundur milli forsetanna væri ekki vænlegur kostur og gætu slíkar viðræður einungis verið skref aftur á bak í friðarviðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert