Segjast ætla að draga úr hernaðarumsvifum

Viðræður milli sendinefndanna fóru fram í Istanbúl í dag.
Viðræður milli sendinefndanna fóru fram í Istanbúl í dag. AFP/Murat Cetin Muhurdar

Friðarviðræður milli sendi­nefnda Rúss­lands og Úkraínu, sem hóf­ust í Ist­an­búl í Tyrklandi fyrr í dag, hafa reynst „þýðing­ar­mikl­ar“. Rúss­ar hafa samþykkt að draga úr hernaðar­um­svif­um og eru full­trú­ar sendi­nefnd­anna sam­mála um að búið sé að leggja grund­völl fyr­ir þjóðarleiðtoga ríkj­anna að ræða sam­an í eig­in per­sónu.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá rúss­nesku sendi­nefnd­inni munu Rúss­ar draga veru­lega úr hernaðar­um­svif­um í norður­hluta Úkraínu, þar á meðal í grennd við höfuðborg­ina Kænug­arð.

Var þetta skref talið mögu­legt í ljósi und­ir­bún­ings samn­ings um hlut­lausa stöðu Úkraínu, að sögn Al­ex­and­er Fom­in aðstoðar­varn­ar­málaráðherra Rúss­lands.

Vla­dimír Med­in­skí, aðal­samn­ingamaður rúss­nesku sendi­nefnd­ar­inn­ar, sagði að viðræðurn­ar í dag hefðu verið þýðing­ar­mikl­ar og að til­lög­ur Úkraínu­manna yrðu lagðar fyr­ir Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta.

Leiðtog­arn­ir gætu hist

Friðarviðræðurn­ar hafa einnig greitt göt­una svo for­set­ar ríkj­anna tveggja geti hist aug­liti til aug­lit­is til að ræða mál­in frek­ar.

„Árang­ur fund­ar­ins í dag er næg­ur til að leiðtog­arn­ir geti hist,“ seg­ir Davik Arak­hamía, aðal­samn­ingamaður úkraínsku sendi­nefnd­ar­inn­ar.

Medenskí tók einnig und­ir orð úkraínska starfs­bróður síns.

„Eft­ir þýðing­ar­mikl­ar viðræður í dag höf­um við komið okk­ur sam­an um og lagt til lausn, sem ger­ir leiðtog­um ríkj­anna kleift að hitt­ast og á sama tíma geta ut­an­rík­is­ráðherr­ar einnig samþykkt sátt­mál­ann,“ seg­ir Medenskí.

„Með því skil­yrði að samn­ing­ur­inn verði gerður fljótt og að kom­ist verði að nauðsyn­legri mála­miðlun, mun mögu­leik­inn á að semja um frið fær­ast nær,“ bætti hann við.

Þjóðarleiðtog­arn­ir hafa ein­ung­is hist einu sinni áður í per­sónu, en það var árið 2019 í Par­ís. Í gær sagði Ser­gei Lavr­ov rúss­neski ut­an­rík­is­ráðherr­ann að fund­ur milli for­set­anna væri ekki væn­leg­ur kost­ur og gætu slík­ar viðræður ein­ung­is verið skref aft­ur á bak í friðarviðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert