Taka orðum Rússa með fyrirvara

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir ekkert gefa til kynna að …
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir ekkert gefa til kynna að Rússum sé alvara og að þeir muni framfylgja loforðum sínum. AFP/Jacquelyn Martin

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna tekur fögrum fyrirheitum Rússa, um að þeir séu að draga úr hernaðaraðgerðum við Kænugarð, með fyrirvara. 

„Ég hef ekki séð neitt sem gefur til kynna að þeir ætli sér að framfylgja þessu á skilvirkan máta því við höfum enn ekki séð merki um að Rússum sé alvara,“ sagði Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna við blaðamenn í Marokkó.

Viðræður milli sendinefnda Úkraínu og Rússlands fóru fram í Istanbúl í Tyrklandi fyrr í dag. Þar kom fram að Rússar væru reiðubúnir að draga úr hernaðarumsvifum í norðurhluta Úkraínu. Töldu þeir þetta mögulegt í ljósi þess að verið er að undirbúa samninga þess efnis að Úkraína verði hlutlaust ríki.

Dæmum Pútín eftir gjörðum hans

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands tekur í sama streng og Blinken og telur of snemmt að fagna því sem fram kom í viðræðum milli ríkjanna í dag.

„Við munum dæma Pútín og stjórn hans eftir gjörðum hans en ekki orðum,“ sagði talsmaður Johnsons við blaðamenn fyrr í dag.

„Við viljum ekki sjá neitt minna en algjöran brottflutning rússneskra hersveita frá landsvæðum Úkraínu,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert