Anton Guðjónsson
Mikill fjöldi flóttafólks leggur leið sína til borgarinnar Lvív, sem er aðeins 70 kílómetrum frá landamærunum við Pólland. „Borgin er troðfull af fólki,“ segir Margeir Pétursson sem býr í Lvív í Vestur-Úkraínu í samtali við mbl.is.
Um tvö til þrjú hundruð þúsund flóttamenn eru í borginni auk þeirra 700 þúsunda sem bjuggu þar fyrir.
„Til dæmis um helgina var miðbærinn alveg troðfullur, ég fór í verslunarmiðstöð sem var troðfull og varla hægt að fá bílastæði,“ segir Margeir.
„Það er mjög mikið af bílum hérna, þar sem maður sér á númerunum að þetta er aðkomufólk frá Karkív og Kænugarði og víðar,“ bætir hann við.
Þrátt fyrir mikinn fólksfjölda í borginni segir hann stríðið ekki hafa mikil áhrif á daglegt líf borgarbúa Lvív, þótt að ástandið sé slæmt nær vígvöllunum.
„Allt er rólegt hér, en öðru hvoru heyrist í loftvarnarflautum,“ segir Margeir.
„Engar eldflaugar hafa komist í gegn síðan á laugardaginn var. Efnahagurinn er í þokkalegu formi hér. Bankinn er opinn frá tíu til fjögur og næstum allt opið eins og venjulega, við höldum þessu gangandi.“
Spurður hvort hann finni fyrir fjárhagsaðstoð Vesturlanda segist hann ekki beint finna fyrir því, en nefnir að þangað berist gífurlega mikið af ýmsum búnaði og heilbrigðisvörum.
„Það vantar ekki neitt hér, nema það er skammtað bensín. Stjórnvöld hvetja til þess að fyrirtæki séu starfandi og ég sé það á viðskiptavinum okkar að þau eru það flest öll.“