Kjör samninga haldi þrátt fyrir greiðslu í rúblum

Vladimír Pútín segir greiðslu í rúblum nauðsynlega.
Vladimír Pútín segir greiðslu í rúblum nauðsynlega. AFP/Mikaíl Klímentív

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í dag við Olaf Scholz kanslara Þýskalands að krafa Rússa um að ríki Evrópu greiði fyrir gas í rúblum, ætti ekki að hafa þau áhrif að kjör gildandi samninga versni.

Í síðustu viku gáfu Rússar út tilkynningu þess efnis að þeir myndu einungis taka á móti greiðslum fyrir gas frá óvinveittum löndum, þar á meðal aðildarríkjum Evrópusambandsins, í formi rúbla.

Nauðsynleg greiðsluaðferð

„Ákvörðunin ætti ekki að hafa áhrif á kjör samninga fyrir evrópsk innflutningsfyrirtæki á rússnesku gasi,“ sagði í yfirlýsingu Kreml þar sem búið var að taka saman ummæli Pútíns úr símtali hans við Scholz.

Pútín sagði greiðsluaðferðina nauðsynlega þar sem gjaldeyrisforði rússneska seðlabankans hefur verið frystur af ESB.

Yfirlýsing Kreml kemur nú stuttu eftir að Þjóðverjar hækkuðu viðbúnaðarstig vegna ótta um að gas verði á skornum skammt þar í landi þar sem Rússar gætu dregið úr afhendingu gass eða stöðvað hana þar sem Vesturlöndin hafa neitað að fylgja kröfum þeirra um greiðslu í rúblum.

Tímafrekt ferli

Robert Habeck fjár­málaráðherra Þýska­lands sagði á mánudag kröfu Rússa vera brot á gildandi samningum. Sagði hann greiðsluaðferðina vera óásættanlega og kallaði hann eftir því að orkufyrirtæki framfylgi ekki kröfunni.

Dmitrí Peskov talsmaður Kreml sagði fyrr í dag að ekki væri búist við því að kaupendur myndu bregðast við strax, greiðsluferlið og afhendingin væru tímafrek ferli.

„Það er ekki eins og það verði að greiða fyrir í kvöld það sem afhent verður á morgun,“ sagði Peskov.

Kynna nýtt kerfi á morgun

Búist er við því að stjórnvöld í Rússlandi, rússneski seðlabankinn og orkurisinn Gazprom, kynni á morgun fyrir Pútín kerfi sem býður upp á þann möguleika að greiða fyrir gas í rúblum.

Stjórnvöld í Kreml hafa gefið til kynna að hægt verði að útvíkka kerfið þannig að hægt sé að nýta það til að taka á móti greiðslum fyrir aðrar útflutningsvörur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert