Vladimír Pútín forseti Rússlands hefur dregið í land þá ákvörðun sína að samþykkja aðeins greiðslur fyrir eldsneyti Rússa með rúblum.
Tilraunir hans til að styrkja gjaldmiðilinn með því að krefjast greiðslu í rúblum var ekki vel tekið og var talað um brot á samningum milli Rússlands og Evrópu, en Pútín á móti sakaði Evrópulöndin um brot á samningum með því að ætla að draga markvisst úr magni eldsneytiskaupanna.
Talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar, Steffan Hebestreit, tilkynnti í dag að Pútín hefði sagt kanslaranum Olaf Scholz að Evrópa gæti greitt fyrir rússneskt eldsneyti í evrum, en ekki í rúblum eins og hann hafði tilkynnt áður.
Næstu greiðslur munu því verða lagðar inn í evrum í Gazprom-bankann, sem er einn af bönkum Rússlands sem hingað til hefur sloppið við refsiaðgerðir Vesturlanda.
„Bankinn skiptir síðan evrunum í rúblur,“ hafði Hebestreit eftir Pútín.