Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag fordæmalausa losun á olíu úr sérstökum neyðarforða Bandaríkjanna til að vinna gegn síhækkandi verði á eldsneyti.
Biden leitar núna allra leiða til að lækka verð á eldsneyti í Bandaríkjunum en það hefur snarhækkaði í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.
Eldsneytisverð hefur orðið að miklu hitamáli fyrir komandi kosningar í Bandaríkjunum í nóvember en demókratar gera allt í þeirra valdi til að halda meirihluta í þinginu.
Biden hyggst leysa 180 milljón olíutunnur úr olíuforðanum á næstu sex mánuðum. Það nemur um milljón tunnum af olíu á dag. Aldrei hefur jafn mikil olía verið leyst úr olíuforða Bandaríkjanna frá því honum var komið á fót árið 1974.
Þar að auki tilkynnti Biden refsiaðgerðir bandarískra stjórnvalda gegn olíufyrirtækjum sem hafa ekki aukið framleiðslu sína á landsvæði sem þau leigja frá ríkinu.
Í tilkynningu Hvíta hússins um málið kom fram að þessi metlosun á olíu ætti að hjálpa Bandaríkjamönnum til loka árs þegar framleiðsla á olíu innanlands ætti að vera búin að aukast til muna.
Óljóst er hversu mikið eldsneytisverð í Bandaríkjunum mun lækka við þessar aðgerðir bandaríska ríkisins. Verðið hefur þó lækkað örlítið strax í kjölfar tilkynningarinnar.