Hræðilegar fréttir af hópnauðgunum taka á

Óskar segir lífið í Kænugarði vera langt frá því að …
Óskar segir lífið í Kænugarði vera langt frá því að vera í líkingu við það sem mætti kalla venjulegt. AFP/Sergei Supinsky

Nóttin var þung í Kænugarði þar sem hávær læti bárust frá átökum úkraínskra og rússneskra hersveita. Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari sem þar er búsettur, kveðst ekki muna eftir öðru eins frá því að stríðið hófst. Hann upplifir sig þó nokkuð öruggan í miðbænum en Úkraínumönnum hefur tekist að þvinga rússneska herinn nokkuð langt frá borgarmörkunum.

Þrátt fyrir góða frammistöðu úkraínska hersins getur verið erfitt að vera bjartsýnn og jákvæður þegar fregnir berast af hópnauðgunum og fólki sem hefur misst ástvini eða aleiguna í árásum Rússa, segir Óskar. 

„Ég sá myndskeið í gær af gamalli konu sem var búin að vera í fjórar vikur í kjallara og hún var búin að missa allt heimilið ofan af sér. [...] Það er svakaleg sorg sem er í gangi sem bítur vel á mann. Ég veit ekki hvað þessi tilfinning kallast en maður er með blendnar tilfinningar.“  

Ekki eðlilegt borgarlíf

Götur Kænugarðs eru að vakna til lífsins og eru kaffihús og verslanir eru farin að opna dyr sínar fyrir viðskiptavinum á nýjan leik. Fór Óskar sjálfur ásamt Mariiku, eiginkonu sinni, í gær að fá sér húðflúr.

Óskar segir lífið þó langt frá því að vera komið í sinn vanagang. Helmingur borgarbúa er farinn og þeir sem eftir eru halda sig margir hverjir í íbúðum sínum.

Óskar Hallgrímsson ljósmyndari í Kænugarði.
Óskar Hallgrímsson ljósmyndari í Kænugarði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er allt mjög súrrealískt, við löbbuðum í gegnum þrjá check-pointa í gær og við þurftum að sýna pappírana okkar. Það er allt út í sandpokum, þú sérð hríðskotabyssur hvert sem þú ferð, það ert allt út í hermönnum og þessu þjóðvarðaliði.“

Hann líkir upplifuninni við að vera staddur í sjónvarpsþáttunum Black Mirror. Jafnvel þegar allt er rólegt og venjulegt, þá eru íbúar ávallt viðbúnir því að eitthvað muni gerast.

„Þú veist alltaf in the back of your mind að þú ert í stríði. Þú ert einhvern veginn alltaf með þetta yfir þér.“

Maríupol helvíti á jörðu

Hann segir loforð Rússa á þriðjudag um að dregið yrði úr hernaði í norðurhluta Úkraínu, við Kænugarð og Tjernihív, ekki hafa vakið upp miklar vonir meðal heimamanna. Rússar voru líka ekki lengi að ganga á bak orða sinna en sprengjum hefur rignt yfir Tjernihív síðustu daga og segir Óskar ástandið þar fara að minna á ástandið í hafnarborginni Maríupol, sem hann lýsir sem helvíti á jörðu. 

Þær fáu herdeildir sem Rússar hafi kallað til baka voru þær sem voru of laskaðar til að halda áfram í stríðinu. „Þeir eru að hörfa, þetta er ekki taktískt að fara í burtu. Þeir eru bara að hörfa undan árásum Úkraínumanna.“

Erfitt að vera bjartsýnn

Þrátt fyrir brotin loforð eru Úkraínumenn bjartsýnir á framgang stríðsins og eru þeir nokkuð sigurvissir, að sögn Óskars. 

Stundum geti þó reynst erfitt að einblína á hið jákvæða og góða. Nú þegar upplýsingaflæði er meira innan Úkraínu og fleiri sögur hafa verið að berast frá úkraínska hernum frá stríðsvæðum.

„Það eru svakalegar sögur og ógeðslegar sögur sem maður er að heyra af kynferðisofbeldi. Þetta stríð er farið að bíta á mann mjög mikið. Og ekki bara mig heldur fyrir hinn almenna Úkraínubúa er þetta farið að vera stórt og mikið sár. Maður er farinn að finna fyrir því. 

Ekki það að það dragi úr viljanum þeirra að berjast eða vonina um að þetta sé einhvern tímann að fara að vera búið. En að heyra þessar ógeðslegu sögur um hvað Rússarnir hafa verið að gera er bara hræðilegt.“

Fjöldi frétta af hópnauðgunum

Þá segir hann Úkraínumenn ítrekað fá fréttir af rússneskum hermönnum hópnauðga úkraínskum konum. 

„Maður upplifir baráttuvilja og maður sér úkraínska herinn standa sig svakalega vel og þetta stríð, miðað við hvernig þetta hefði getað verið, gengur rosa vel Úkraínumegin. En á móti kemur þá heyrir maður þessar sorgarsögur.

Maður er búinn að heyra hundrað eða tvö hundruð síðastliðinn sólarhring og þetta bítur alveg á mann. Það er bara þannig. Og það er ekki bara ég, það er eitthvað sem maður heyrir frá flestum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert