Kínversk-rússnesk samvinna engum takmörkum háð

„Kínversk-rússnesk samvinna er engum takmörkum háð.“ Þetta sagði Wang Wenbin, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína í dag, en utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov er í sinni fyrstu heimsókn í Kína síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Wenbin sagði jafnframt: „Barátta okkar fyrir friði er engum takmörkum háð, viðhald öryggis okkar er engum takmörkum háð, andstaða okkar gagnvart drottnun annarra ríkja er engum takmörkum háð.“

Kínverjar hafa hvorki lýst yfir stuðningi við stríðið í Úkraínu né fordæmt það, og viðhalda enn hlutleysi sínu að nafninu til.

„Sem varanleg aðildarlönd að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, hafa Kína og Rússland unnið að uppbyggingu tvíhliða sambands sem byggir á undirstöðuatriðum óháðra landa, gegn ágreiningi, og að beina ekki spjótum sínum að þriðja aðila. Báðir aðilar munu halda áfram marghliða samvinnu, og vinnu gagnvart alþjóðlegri fjölpólun og að alþýðuvæða alþjóðleg samskipti,“ sagði Wenbin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert