Loforð Rússa innantóm orð

Úkraínskur hermaður faðmar eiginkonu sína í borginni Irpin sem er …
Úkraínskur hermaður faðmar eiginkonu sína í borginni Irpin sem er staðsett í útjaðri Kænugarðs. AFP

Stjórnvöld í Kreml segja ólíklegt að einhver þýðingarmikil skref verði tekin í átt að friði í Úkraínu í kjölfar friðarviðræðna sem haldnar voru í Istanbúl á þriðjudag. Ekkert „haldbært“ hafi komið út úr þeim.

Ummælin stangast á við jákvætt mat aðalsamningamanns Rússa, sem sagði umræður um að Úkraína yrði hlutlaust ríki þokast áfram og að rússneskar hersveitir myndu draga rækilega úr hernaðaraðgerðum sínum í kringum Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, og borgina Tsérnihív í norðurhluta landsins.

Irpín nánast rústir einar

Yfirvöld þeirrar borgar segja rússneskar hersveitir hafa haldið árásum sínum á borgina áfram aðfaranótt miðvikudags, þvert á gefin loforð. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna varar við því að rússneskar hersveitir gætu verið að undirbúa „meiriháttar“ sókn annars staðar í landinu. Borgarstjóri úkraínsku borgarinnar Irpin segir minnst tvö hundruð hafa látið lífið í átökunum í borginni, sem sé nú nánast rústir einar eftir árásir rússneskra hersveita.

Úkraínski herinn hefur endurheimt yfirráð yfir hluta þjóðvegar fyrir utan Karkív, aðra stærstu borg Úkraínu, og þannig dregið úr árásargetu rússneskra hersveita.

Rússneskar hersveitir skutu á og hæfðu byggingu Rauða krossins í Maríupol í sunnanverðu landinu samkvæmt upplýsingum frá hjálparsamtökunum í landinu. Ekki kom fram í tilkynningunni hvenær skotið var á bygginguna né hvort einhver hefði látist í árásinni.

Bandarískur embættismaður segir Vladimír Pútín Rússlandsforseta hafa verið afvegaleiddan af hernaðarráðgjöfum, sem séu tregir til þess að gefa upp nákvæmar tölur yfir fjölda rússneskra hermanna sem fallið hafa í stríðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert