Karíne segir upptökur sem íbúar hafi heyrt sem eiga að vera af rússneskum hermönnum að hringja heim til Rússlands vera sláandi og lýsi hugarfari innrásaraðila. Meistaranámið hennar mun halda áfram í næstu viku þrátt fyrir að borgin sé enn reglulegt skotmark Rússa. Sergei mætti í fyrsta skiptið í vinnuna frá upphafi stríðs til að vinna allavega hálfan vinnudag.
Við höldum áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borginni Ódessa í suðurhluta landsins, Sergei í Lvív í vesturhluta landsins og Karine í borginni Karkív í austurhluta landsins, en þau deila með mbl.is upplifunum sínum og greina frá því hvað efst er í huga almennra borgara eftir að stríð braust út í landi þeirra.
Sergei í Lvív
Þrítugasti og fimmti dagur stríðsins. Í dag tók ég fyrsta hálfa vinnudaginn frá því að stríðið hófst. Það var frábært að komast aftur á skrifstofuna og gera eitthvað annað en að hugsa um stríðið. Gaman að geta gert hluti sem ég þekki vel og get gert vel. Í kvöld þegar ég kom heim ákvað ég að klára tónlistarverkefnið sem ég hef unnið að – engin hvíld fyrir þá syndugu! Það rigndi annars í dag og var frekar kalt.
Á meðfylgjandi myndum má meðal annars sjá dagatalið í vinnunni, sem var enn stillt á daginn fyrir stríð og svo eina sem sýnir hvernig götur hér í borginni líta út á stríðstíma.
Staðan: Hlusta á Mochat Doma
Karíne í Karkív
Karkív er áfram skotmark stórskotaliðsárása og Rússarnir skjóta á íbúðahverfi í borginni. Í dag hjálpaði eiginmaður minn við að byrgja glugga í húsi þar sem sprengingar höfðu eyðilagt alla glugga. Læt fylgja með hylki af klasa sprengju sem var notuð hér, en eiginmaðurinn tók myndina. Klasasprengjur eru bannaðar samkvæmt Genfarsáttmálanum og þessi sprengja lenti í garði við íbúðahús þar sem fjölskylda með þrjú börn býr. Sem betur fer slasaðist enginn því fjölskyldan faldi sig í kjallara hússins. Svona sprengjuárásir eru ekkert annað en glæpir gegn mannkyninu.
Í dag sá eiginmaður minn sprengjur fljúga í átt að spítala og í framhaldinu kviknaði þar eldur, en það tókst að slökkva eldinn á um tveimur tímum.
Leyniþjónusta Úkraínu hefur náð að hlera símtöl rússneskra hermanna við ættingja þeirra í Rússlandi. Þetta eru sláandi upptökur þar sem ættingjar heima fyrir styðja stríðið og hafa jafnvel beðið hermennina um að koma heim með eitthvað verðmætt. Á einni upptökunni mátti meðal annars heyra eiginkonu biðja manninn sinn um að stela og koma með fartölvu fyrir sig, skó og önnur föt. Þau virðast telja þjófnað vera í góðu lagi.
Það er enginn öruggur staður í Úkraínu. Flestar borgir eru skotmörk sprengjuárása, bæði frá stórskotaliðið og með flugskeytum. Hernum okkar hefur tekist vel að skjóta niður loftför óvinarins og að verjast stórum hluta sprengjuárásanna, en sumar sprengjurnar komast í gegn. Rússar eru meðal annars að skjóta eldflaugum frá skipum á Svartahafi, frá Hvíta-Rússlandi og Rússlandi. Við eigum því miður ekki nóg af vopnum til að verja okkur frá þessum árásum.
Ég talaði við vinkonu okkar sem flúði héðan vestur til borgarinnar Myrhorod, en hún er í Poltava-héraðinu. Það heyrist reglulega í loftvarnaflautum hér í Karkív og vinkona okkar sagðist hafa fengið fréttir frá nágrönnum sínum í gær um að hverfið hennar hefði orðið fyrir miklum skemmdum í stórskotaliðsárás. Meðal annars var kirkjan sem hún sækir eyðilögð og sprengjur féllu skammt frá húsinu hennar.
Í dag tókst mér að vinna aðeins í meistaranáminu sem ég er í (í listsögu), en vörnin mín er áformuð í júní. Frá og með næsta mánudegi munum við taka tíma í fjarkennslu, en í faraldrinum notuðum við það einnig talsvert. Staðan núna er þó öllu alvarlegri.
Jaroslav í Ódessu
Allt sem við ætluðum að gera í dag tókst, en ef við horfum til fjölda nýrra verkefna sem bíða okkur á morgun er ljóst að morgundagurinn verður ekki síður erfiður en dagurinn í dag. Þess vegna óskuðum við eftir fleiri sjálfboðaliðum til að aðstoða með sendingar á mat á morgun.
Vinir okkar nær og fjær hjálpa okkur áfram með því að senda samtökunum pening. Næsta ferð í stórmarkaðinn er nú í undirbúningi, en hjálparlistinn okkar er alltaf að lengjast og því meira sem þarf að kaupa. Fleiri vinir hafa sent ýmiskonar aðstoð sem við bíðum nú eftir að fá í hendurnar.
Það verður fróðlegt að sjá hvað morgundagurinn mun bera í skauti sér.