Verði að greiða fyrir eldsneyti í rúblum

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti þrýstir enn á „óvinveittar þjóðir“, þar með taldar allar Evrópusambandsþjóðirnar, að greiða fyrir rússneskt eldsneyti í rúblum.

Virðist honum því hafa snúist hugur um að leyfa Evrópu að greiða fyrir eldsneyti í evrum, líkt og talsmaður þýsku rík­is­stjórn­ar­inn­ar, Steff­an Hebestreit, tilkynnti í gær.

Frá þessu er greint í þýska vikuritinu Der Spiegel.

Breytingin tekur gildi á morgun

Frá og með 1. apríl verða vestræn ríki að stofna reikninga hjá Gazprombank til að geta haldið áfram að taka á móti rússnesku eldsneyti ellegar verði eldsneytissendingar til þeirra stöðvaðar, að því er Pútín tilkynnti í rússneska ríkissjónvarpinu.

Óljós var í fyrstu hvort ríkin sjálf þyrftu að greiða fyrir eldsneytið í rúblum eða hvort evrugreiðslum yrði skipt beint.

Frakkland og Þýskaland undirbúa sig nú fyrir mögulega stöðvun á eldsneytissendingum frá Rússlandi. Frá þessu greindi Bruno Le Maire, efnahagsráðherra Frakklands, í kjölfar tilkynningar Pútíns í dag, að sögn AFP-fréttastofunnar.

„Þær aðstæður gætu komið upp á morgun að við fáum ekkert eldsneyti frá Rússlandi. Það er undir okkur komið að undirbúa okkur fyrir þessar sviðsmyndir og sú vinna er hafin,“ sagði Le Maire eftir viðræður sínar við Robert Habeck, efnahagsráðherra Þýskalands.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands gefur lítið fyrir hótanir Pútíns.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands gefur lítið fyrir hótanir Pútíns. AFP

Vestrænir leiðtogar gefa lítið fyrir hótanirnar

Þrátt fyrir hótanir Kremlverja um að loka á eldsneytissendingar frá Rússlandi til Evrópu hyggjast vestræn ríki halda áfram að greiða fyrir rússneskt eldsneyti í evrum eða bandaríkjadölum, að því er Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, greindi frá í dag.

„Við skoðuðum samningana um eldsneytisafgreiðslu,“ sagði Scholz á blaðamannafundi í Berlín.

„Í þeim stendur að greiðslur séu gerðar í evrum, stundum í bandaríkjadölum, og ég tók það skýrt fram í samtali mínu við Rússlandsforseta að svo yrði áfram,“ bætti hann við og vísaði til símtals sem hann átti við Pútín í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert