Björgunaraðgerð í Maríupol gæti þurft að bíða

Erfitt hefur reynst að ná sambandi við þá sem eru …
Erfitt hefur reynst að ná sambandi við þá sem eru eftir í borginni enda búið að skera á símalínur. AFP/Maxar Technologies

Ekki er ljóst hvort hægt verði að flytja almenna borgara úr úkraínsku borginni Maríupol í dag eins og vonir stóðu til um.

„Við erum áfram vongóð, við erum að færa okkur nær Maríupol en það er enn ekki ljóst hvort að það muni gerast í dag,“ sagði Ewan Watson, talsmaður alþjóðanefndar Rauða krossins sem hefur verið að skipuleggja þessa aðgerð.

Hafnarborgin sem er við Asovhaf er illa leikin eftir stöðugar árásir Rússa. Ekki er vitað hversu margir hafa látist en auk þess að vera skotmark loftárása hefur hún verið umkringd í lengri tíma án rafmagns og rennandi vatns.

Þá hafa árásir verið gerðar á skjólstaði flóttamanna þar sem talið er að hundruðir hafi verið þegar Rússar létu til skarar skríða.

Illa hefur gengið að bjarga þeim borgurum sem eftir er í borginni en í yfirlýsingu Rauða krossins í gær kom fram að teymi á þeirra vegum væri að undirbúa öruggan flutning almennra borgara frá Maríupol þar sem líf tugþúsunda væri í húfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert