Yfir þrjú þúsund almennum borgurum hefur verið bjargað frá úkraínsku borginni Maríupol í dag. Rússneski herinn hefur setið um borgina síðustu vikur og fjölmargar mannskæðar árásir hafa verið gerðar á borgaraleg skotmörk.
„Í dag var unnið að flóttaleiðum á þremur svæðum: Donetsk, Lúhansk og Saporisjía. Okkur hefur tekist að bjarga 6.266 manns, þeirra á meðal 3.071 manns frá Maríupol,“ sagði forsetinn Volodimír Selenskí í ávarpi fyrr í kvöld.
Ekki liggur fyrir hvort að flóttamönnunum hafi verið bjargað beint frá Maríupol eða hvort að þeim hafi tekist að flýja borginni á eigin vegum og síðan verið fluttir frá Saporisjía til norðvesturhluta landsins sem telst öruggari.