Borgarar dregnir út í garð og teknir af lífi

Ljósmynd/ Óskar Hallgrímsson

Búið er að stafla upp sandpokum og umvefja styttur í Kænugarði. Annars er allt með kyrrum kjörum og lífið í borginni að færast skrefi nær sinni eðlilegu mynd. 

Sandur úr fjörunni í Ódessa er notaður til þess að fylla sandpokana í von um að þannig verði aldagömlum styttum forðað frá tjóni. 

Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði, fór á stúfana og smellti myndum af þessari nýju birtingarmynd menningarminja borgarinnar.

Ljósmynd/ Óskar Hallgrímsson

Má ekki mynda hvað sem er

Óskar þurfti þó að gæta þess að á myndunum sæist ekki í neitt tengt hernaði, enda voru nýlega sett á lög um algjört bann við miðlun upplýsinga sem gætu leitt til þess að Rússar geti kortlagt varnaraðgerðir Úkraínu. 

Vegatálmanir og eftirlitsstöðvar eru út um alla borg og hermenn þar í kring sem leiðbeindu Óskari með það í hvaða átt hann mætti eða mætti ekki beina myndavélinni.

Hernaðaraðstoðin frá Bandaríkjamönnum, að andvirði 800 milljón dollara, er nýkomin og með henni hafa loftvarnir verið styrktar umtalsvert. 

Borgin að lifna við

Óskar hefur orðið var við að fólk sem hafði flúið borgina lengra inn til landsins, sé að snúa aftur, enda sé hún orðin örugg. Hann kveðst hættur að kippa sér upp við hljóð sprenginga. 

Borgin er að lifna við, birgðastaðan farin að taka við sér í verslunum á ný og mikið fólk á ferli. „Við fórum í apótek og það var engin röð, svo komumst við loksins aftur inn á vinnustofuna okkar.“

Ill meðferð af hendi rússneskra hermanna

„Það er allt fínt að frétta frá Kænugarði, allt í kring hér er orðið frelsað og búið er að ýta Rússunum ansi langt vestur.“

Í morgun fékk Óskar þó fregnir af því að rússneski herinn hefði framfylgt tilskipun um að taka fólk af lífi í úthverfinu Búcha. „Það var gert, almennir borgarar voru dregnir út í garð og teknir af lífi. Saklaus maður á hjóli var skotinn í hausinn og féll til jarðar með hjólið milli lappanna.“

Þá segir Óskar einnig að þar sem rússneski herinn hafi haft viðveru í einhvern tíma séu þeir bæði að ráðast inn á heimili fólks, ræna það og eyðileggja muni. Einnig hafi verið mikið um kynferðisofbeldi, en Óskar veit um þrjár hópnauðganir af hendi rússneskra hermanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert