Heldur til Moskvu í von um vopnahlé

Martin Griffiths, sem stýrir viðbrögðum SÞ við neyðarástandi, mun fljúga …
Martin Griffiths, sem stýrir viðbrögðum SÞ við neyðarástandi, mun fljúga til Moskvu á sunnudag og síðan yfir í Kænugarð. AFP

Einn af æðstu embættismönnum Sameinuðu þjóðanna hyggst heimsækja Moskvu um helgina í von um að tryggja „vopnahlé“ í Úkraínu.

Frá þessu greindi Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, í dag.

Martin Griffiths, sem stýrir viðbrögðum SÞ við neyðarástandi, mun fljúga til Moskvu á sunnudag og síðan yfir í Kænugarð.

Guterres sagði heimsóknina sýna að Sameinuðu þjóðirnar „gefist ekki upp á því sjónarmiði að stöðva átökin í Jemen, Úkraínu og allstaðar í heiminum“.

Stjórnvöld í bæði Rússlandi og Úkraínu höfðu samþykkt að funda með Griffiths, að hans eigin sögn.

Rússar hafa fram að þessu hafnað öllum beiðnum Sameinuðu þjóðanna um að funda um stríð þeirra í Úkraínu. Nokkrum vikum áður en rússneskar hersveitir réðust inn í Úkraínu bauðst Guterres til að senda Rosemary Dicarlo, staðgengil hans í stjórnmálum, til fundar við rússnesk stjórnvöld.

Frá því stríðið braust út hefur Griffiths ekki tekist að ná til Vladimírs Pútíns, sem reiddist ásakanir aðalritarans um að Rússar hefðu brotið sáttmála SÞ með því að ráðast inn í nágrannaríki sitt, að sögn talsmanna rússnesku ríkisstjórnarinnar.

Moskva neitar því að „stríð“ standi yfir og fullyrðir að frekar sé um að ræða „sérstakar hernaðaraðgerðir“ í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert