Helmingur úkraínskra barna á vergangi

Níutíu prósent þeirra sem flúið hafa eru konur og börn.
Níutíu prósent þeirra sem flúið hafa eru konur og börn. DANIEL LEAL

Tæplega 4,14 milljón Úkraínumanna hafa flúið heimaland sitt síðan innrás Rússa hófst þann 24. febrúar. Á hverjum degi bætast tugir þúsunda í hóp flóttafólks, ef marka má tölur frá Sameinuðu þjóðunum. AFP-fréttastofan greinir frá.

Talan hækkaði í dag um 34.966 einstaklinga frá því í gær.  

Níutíu prósent þeirra sem flúið hafa eru konur og börn, en herskylda hvílir á karlmönnum á aldrinum átján til sextíu ára og hafa þeir því ekki getað yfirgefið landið.

Þá hafa 205 þúsund einstaklingar til viðbótar, af öðru þjóðerni, sem bjuggu, stunduðu nám eða störfuðu í Úkraínu, yfirgefið landið.

Um 6,48 milljónir hafa þurft að flytja innan Úkraínu vegna ástandsins. Allt í allt eru því um tíu milljónir manns á vergangi vegna stríðsins, með einum eða öðrum hætti, en það samsvarar um fjórðung af úkraínsku þjóðinni allri. Þar af um helmingur allra úkraínskra barna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert