Dregið hefur úr straumi flóttamanna frá Úkraínu til Póllands, en í gær voru tölur yfir flóttamenn sem fóru yfir landamærin þær næstlægstu frá því innrás Rússa hófst þann 24. febrúar síðastliðinn. BBC greinir frá.
Alls hafa rúmar 2,4 milljónir flóttamanna farið yfir landamæri Úkraínu og Póllands frá því innrásin hófst, en þeim fjölgar sem snúa nú aftur til Úkraínu. Rúmlega 420 þúsund manns hafa snúið aftur frá Póllandi til Úkraínu frá upphafi innrásarinnar, en í gær snéru um 15 þúsund manns til baka.
Yfir 10 milljónir Úkraínumanna hafa þurft að flýja heimili sín í Úkraínu samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Rúmar fjórar milljónir hafa flúið yfir til nágrannaríkja, þar á meðal Póllands. En um 6,5 milljónir eru á vergangi innan Úkraínu.