Vill sjá handtökutilskipun á hendur Pútín

Carla del Ponte vakti athygli við saksókn vegna þjóðarmorðanna í …
Carla del Ponte vakti athygli við saksókn vegna þjóðarmorðanna í Rúanda og stríðsins í Júgóslavíu. AFP

Fyrrverandi sérstakur saksóknari á sviði stríðsglæpa, Carla Del Ponte, kallar eftir því að alþjóðlegi sakamáladómstóllinn gefi út handtökutilskipun á hendur Vladimír Pútin, forseta Rússlands. 

„Pútín er stríðsglæpamaður,“ var haft eftir Del Ponte í viðtali við Le Temps sem birtist í dag. 

Del Ponte er sjötíu og fimm ára. Hún kemur frá Sviss og vakti athygli fyrir störf sín sem saksóknari vegna þjóðarmorðanna í Rúanda og stríðsins í Júgóslavíu. 

Stórt og mikilvægt skref væri stigið með því að gefa út handtökutilskipun, að mati Del Ponte. Þar með væri sýnt fram á að rannsókn hefði farið fram og hægt að kalla Pútín fyrir dóm. 

Pútín yrði ekki handtekinn í Rússlandi, en ef slík tilskipun yrði gefin út hefði hún þær afleiðingar að Pútín gæti ekki farið út fyrir landamörk Rússlands. Gæfi það sterk skilaboð þess efnis að hann hefði alþjóðasamfélagið upp á móti sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert