Vonir bundnar við að Sviss geti haft áhrif

Frá mótmælunum í Bern í dag.
Frá mótmælunum í Bern í dag. AFP/ Fabrice Coffrini

Fjölmenn mótmæli fóru fram í Bern í Sviss í dag þar sem stríðinu í Úkraínu var mótmælt. Um tíu þúsund manns tóku þátt og veifuðu fánalitum Úkraínu.

Í dag snjóaði í Bern og veður var því reyndar ekki ákjósanlegt. 

Skipuleggjendur sögðu tilganginn með mótmælunum meðal annars vera þann að setja þrýsting á svissnesk stjórnvöld um að beita sér fyrir friðarviðræðum á milli Rússa og Úkraínumanna. 

AFP/Fabrice Coffrini

Sviss á sér langa sögu um hlutleysi í alþjóða stjórnmálum og ríkið er ekki í Evrópusambandinu. Í þetta skiptið hefur Sviss þó beitt sér gegn Rússlandi með efnahagsaðgerðum. Hafa eignir Rússa í Sviss til að mynda verið frystar fyrir um 800 milljarða króna. 

Þar sem auðugir Rússar eiga í umfangsmiklum viðskiptum við banka í Sviss binda margir vonir við að Svisslendingar geti haft áhrif á gang mála, til dæmis með efnahagsþvingunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert