Ríkissaksóknari Úkraínu, Irína Venediktóva, segir að fundist hafi lík 410 almennra borgara í jaðri Kænugarðs. „Líkin fundust á svæði sem Rússar höfðu yfirtekið en hörfað frá og réttarsérfræðingar hafa þegar kannað 140 þeirra.“
Her Úkraínu sem endurheimti allt stór-Kænugarðssvæðið um helgina hefur sakað yfirvöld í Moskvu um vísvitandi fjöldamorð á almennum borgurum í borginni Bútsja sem er 30 kílómetrum norðvestur af höfuðborginni.
Í gær hafði borgarstjóri Bútsja, Anatolí Fedorúk sagt AFP-fréttaveitunni að 280 lík væru í fjöldagröfum í borginni. Einnig lágu lík borgara á götum úti og fréttamenn AFP sáu á einni götu yfir tuttugu lík liggja á götunni, og var einn þeirra látnu með hendur bundnar fyrir aftan bak. Ekkert af fórnarlömbunum var klætt í herbúninga.
Embættismenn á staðnum sýndu blaðamönnum gröf 57 manna, þar sem moldin náði ekki að hylja sum líkanna. Rússar hafa neitað að hafa drepið almenna borgara og segja ásakanirnar vera „enn eina ásökunina frá stjórnvöldum Kænugarðs og vestrænum fjölmiðlum.“
„Meðan rússneski herinn var á þessu svæði var ekki einn íbúi sem varð fyrir ofbeldi af hálfu hersins,“ var tilkynnt frá rússneska varnarmálaráðuneytinu í dag. Rússneski herinn yfirtók Bútsja aðeins þremur dögum eftir að innrásin í Úkraínu hófst, 24. febrúar.
Yfirvöld í Úkraínu hafa einnig sakað Rússa um að myrða almenna borgara í Irpín sem er á sama svæði, en borgin eins og Bútsja hefur orðið fyrir skelfilegri eyðileggingu.
Þeir segja að þar hafi að minnsta kosti 200 manns verið myrtir, en borgin féll líka í hendur Rússa á fyrstu dögum innrásarinnar.