Hryllingurinn í Bútsja verði rannsakaður

Lík almennra borgara lágu á víð og dreif um götur …
Lík almennra borgara lágu á víð og dreif um götur bæjarins. AFP/RONALDO SCHEMIDT

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, segist skelfingu lostin yfir fréttum af ódæðisverkunum í Bútsja, bæjar í útjaðri Kænugarðs, sem og í öðrum bæjum í Úkraínu. Eftir að rússneski herinn hörfaði þaðan kom í ljós mikil eyðilegging og lík almennra borgara lágu á víð og dreif um götur bæjarins. Að minnsta kosti 20 lík fundust í gær og ljóst var að fólkið hafði verið skotið. The Guardian segir frá.

Þá var haft eftir Anatoly Fedoruk, bæjarstjóra Bútsja, að 280 íbúar bæjarins hefðu verið grafnir í fjöldagröfum.

Hryllingurinn blasti við þegar rússneskar hersveitir hörfuðu.
Hryllingurinn blasti við þegar rússneskar hersveitir hörfuðu. AFP/RONALDO SCHEMIDT

„Það er viðjóðslegt að heyra fréttir af því að rússneskir hermenn hafi skotið saklausa borgara af ásettu ráði,“ skrifaði Truss á Twitter í gær.

Hún segir að Bretar vinni að því ásamt fleirum að safna sönnunargögnum til að styðja við rannsókn Alþjóðaglæpadómstólsins á stríðsglæpum.

„Þeir sem bera ábyrgð munu þurfa að svara til saka,“ skrifaði utanríkisráðherrann jafnframt.

Líkin lágu með hjólin sér við hlið

Mikil eyðilegging blasti við úkraínskum hermönnum þegar þeir komu til Bútsja í gær. Brenndir og ónýtir skriðdrekar og önnur hernaðarleg farartæki höfðu verið skilin eftir á götum bæjarins og tepptu vegina.

Þá sögðust blaðamenn AFP-fréttastofunnar hafa séð að minnsta kosti 20 lík almennra borgara liggja á götum úti. Einn var með hendur bundnar fyrir aftan bak. Þrír höfðu greinilega verið hjólandi þegar þeir voru skotnir, en þeir lágu á götunni með hjólin við hlið sér.

AFP/RONALDO SCHEMIDT

„Þetta er stríðsglæpur“

Úkraínskum hermönnum var tekið fagnandi af bæjarbúum. Þeir færðu til brennda skriðdreka þannig hægt væri að aka um götur bæjarins. Þá könnuðu þeir alla torkennilega hluti og gengu úr skugga um að ekki væri um sprengjur að ræða. Þá merktu þeir svæði sem þarf að varast vegna sprengjuhættu.

AFP/Sergei SUPINSKY

Halyna Tovkach, sem er 55 ára og býr í Bútsja, sagði í samtali við The Guardian að hún væri að leita að líki eiginmanns síns, Oleg. Hann hefði verið drepinn af rússneskum hermönnum ásamt nágrönnum þeirra, tveimur ungum drengjum og móður þeirra, þegar þau reyndu að flýja bæinn í byrjun mars. „Þetta er stríðsglæpur,“ sagði sonur Tovkach.

AFP/RONALDO SCHEMIDT
AFP/ARIS MESSINIS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert