Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur lýst áhyggjum af mögulegu fjöldamorði í Afríkuríkinu Malí. Sumar heimildir herma að hinn rússneski Wagner-hópur hafi verið að verki á meðan aðrir segja að um sé að ræða malíska herinn.
Á föstudaginn gaf herinn út yfirlýsingu þess efnis að síðustu tíu daga marsmánaðar hefðu 203 vígamenn verið drepnir í bardögum tengdum sérstökum aðgerðum sem nú eiga sér stað í Moura-svæðinu í miðlægu landinu, þar sem íslamskir hryðjuverkahópar hafa ráðið ríkjum.
Í kjölfar yfirlýsingarinnar tóku aftur á móti færslur að birtast á samfélagsmiðlum um að fjöldi almennra borgara hefði verið myrtur á svæðinu.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna gaf síðan út í dag að það hefði sérstakar áhyggjur vegna frásagna af fjöldamorðunum í Moura og fylgdist grannt með stöðu mála. Þá vottaði ráðuneytið fjölskyldum fórnarlambanna virðingu sína.
Í yfirlýsingu ráðuneytisins var tekið fram að heimildir væru fyrir því að hinn alræmdi Wagner-hópur Rússa hefði verið að verki. Aðrar heimildir hermdu þó að um væri að ræða Malíska herinn.
Mikil ólga hefur verið í landinu síðustu ár en frá árinu 2012 hafa íslamskir hryðjuverkahópar dreift sér um landið og ríkinu, sem telur um 21 milljón íbúa sem flestir búa við fátækt, hefur ekki tekist að halda áhrifum þeirra í skefjum.
Malíski herinn hefur oft verið ásakaður um að hafa misbeitt valdi sínu. Bandaríkin og önnur ríki hafa sakað Wagner-hópinn um að hafa sent hundruð vígamanna til landsins.
Takmarkað aðgengi að átakasvæðunum í Malí og skortur af sjálfstæðum miðlum þar í landi hefur aftur á móti orðið til þess að erfiðlega hefur gengið að fá fregnir staðfestar.
Fréttastofu AFP hefur til að mynda ekki tekist að staðfesta tölur hersins um sem fallið hafa í átökunum, né þeirra almennra borgara er segir í færslum samfélagsmiðlanna.