Samfélagsmiðlabanni mótmælt í Sri Lanka

Margir flúðu hersveitirnar á mótmælunum.
Margir flúðu hersveitirnar á mótmælunum. AFP

Vopnaðar hersveitir í Sri Lanka stöðvuðu í dag mótmælagöngu þar sem borgarar mótmæltu efnahagsástandi landsins eftir að stjórnvöld boðuðu samfélagsmiðlabann og settu þannig tjáningarfrelsi íbúa Sri Lanka þröngar skorður.

Skortur á mat, eldsneyti og öðrum nauðsynjavörum plaga íbúa nú þegar mesta efnahagslægð í sögu landsins ríður yfir, frá því það öðlaðist sjálfstæði árið 1948.

Gotabaya Rajapaksa, forseti Sri Lanka, lýsti yfir neyðarástandi í landinu á föstudag, daginn eftir að reiður múgur gerði tilraun til innbrots á heimili hans í höfuðborginni Colombo og tók útgöngubann gildi í landinu sem stendur yfir fram á mánudagsmorgunn.

Stjórnarandstöðuflokkurinn Samagi Jana Balawayaga hefur fordæmt samfélagsmiðlabannið og skipulagt mótmælagöngur þar sem krafist er afsagnar ríkisstjórnarinnar. Hersveitum var stillt upp til þess að stöðva mótmælagönguna þar sem halda átti á Sjálfstæðistorg Colombo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert