Vinur Pútíns endurkjörinn sem forsætisráðherra

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands. AFP

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjaldands, fagnaði kosningasigri stjórnmálaflokksins síns, Fidesz, í kvöld. Í sigurræðu sinni sagði hann að flokkurinn hefði náð fram stórkostlegum sigri, þegar búið var að telja þrjá fjórðu greiddra atkvæða.

„Svo stórum, að hann sést jafnvel frá tunglinu, en ótvírætt frá Brussel.“

Kjörgengi var um 68,69 prósent, og þykir það mikið fyrir Ungverjaland. 

Halda í hlutleysi Ungverjalands

Nú þegar niðurstöður kosninganna liggja fyrir er ljóst að Orbán á fyrir höndum fjórða kjörtímabilið í röð.

Orbán er vinur Vladimírs Pútín, forseta Rússlands og hefur Ungverjaland ekki fordæmt innrás Rússa í Úkraínu.

Mótframbjóðandi hans, Marki-Zay, reyndi að stilla kosningabaráttu sinni upp þannig að kjósendur yrðu í raun að velja á milli Pútín og Evrópusambandsins, en hann er mjög hliðhollur sambandinu.

Í kosningabaráttu sinni lagði Orbán áherslu á það að Ungverjaland héldi í hlutleysi sitt þegar kemur að stríðinu í Úkraínu. Hann hefur verið gagnrýndur harðlega á leiðtogafundum Evrópusambandsins fyrir þessa nálgun.

Verjandi kristinnar Evrópu

Orbán hefur verið kallaður sjálfskipaður verjandi „kristinnar Evrópu“.

Gagnrýnendur hans saka hann um að nota kristni gegn andstæðingum sínum. Hann beiti trúnni einnig gegn minnihlutahópum á borð við innflytjendur og LGBTQ-fólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert