Úkraínsk yfirvöld hafa fundið lík fimm almennra borgara í Mótisjín, bæ vestur af Kænugarði. Bæjarstjóri Mótisjín, Olga Súkenkó, eiginmaður hennar og sonur voru á meðal fórnarlambanna.
Lögregla sýndi blaðamönnum AFP fréttastofunnar fjögur lík sem fundust hálfgrafin í furuskógi nærri heimili bæjarstjórans. Fimmta líkið fannst í litlum brunni í garði bæjarstjórans. Þeir látnu, fjölskylda bæjarstjórans og tveir aðrir, fundust með hendur sínar bundnar fyrir aftan bak.
Súkenkó, eiginmanni hennar og syni þeirra, var rænt af rússneskum hermönnum 24. mars síðastliðinn, að sögn lögreglu. Íbúar bæjarins sögðu að Súkenkó og eiginmaður hennar hefðu neitað að vinna með rússneska innrásarhernum.
Þann 11. mars var borgarstjóra Melítópol í suðurhluta Úkraínu rænt af rússneskum hermönnum en sleppt eftir nokkra daga.
Í Bútsja, sem er staðsett í um 30 kílómetra fjarlægð frá Mótisjín, hafa lík almennra borgara fundist á við og dreif á götum úti og í fjöldagröfum.
Fyrr í dag fundust lík fimm manna sem voru pyntaðir og myrtir af rússneskum hermönnum í kjallara á heilsuhæli fyrir börn í Bútsja. Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, hefur sakað Rússa um þjóðarmorð.