Hver er Viktor Orbán?

Viktor Orban var endurkjörinn forsætisráðherra Ungverjalands, en flokkur hans var …
Viktor Orban var endurkjörinn forsætisráðherra Ungverjalands, en flokkur hans var með meirihluta atkvæða í dag. AFP

Hann er þjóðernissinni í augum stuðningsmannanna en einræðisherra í augum andstæðinga sinna, en Viktor Orbán og Fidesz flokkur hans voru sigurvegarar kosninganna í Ungverjalandi í gær og verða því við völd næstu fjögur árin. Hinn 58 ára Viktor Orbán er þegar þaulsetnasti forsætisráðherra allra landa Evrópusambandsinsins en hann hefur verið forsætisráðherra landsins frá 2010, og fyrir þann tíma var hann forsætisráðherra á árunum 1998-2002.

Vanþóknun hans á elítisma og alþjóðahyggju hefur aflað honum fylgis annarra þjóðernissinna, hefur hlutleysi hans í stríði Rússa gegn Úkraínu einangrað hann frá annars hliðhollum nágrönnum hans í Evrópusambandinu, eins og Póllandi.

Viktor hefur átt í góðum samskiptum við fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, og íhaldsmanninn Jair Bolsonaro í Brasilíu og alveg þar til mjög nýlega við Vladimír Pútín forseta Rússlands, sem hefur verið eldur á myllu andstæðinga hans.

Reis ungur til metorða

Viktor Orbán reis til metorða þegar gamli kommúnismi Evrópu var í dauðateygjunum. Hann varð þekktur eftir að halda ræðu árið 1989 þar sem hann krafðist lýðræðis og að sovéski herinn færi í burtu. Hann þótti ein stærsta upprennandi stjórnmálastjarnan í „nýju Evrópu“ og varð þingmaður í hinu nýja lýðræðisríki Ungverjalandi 1990 þar sem hann var meðstofnandi Sambands ungra lýðræðissinna, Fidesz. Það leið þó ekki á löngu þar til Viktor sveigði stefnu flokksins vel til hægri og lagði áhersluna á fjölskyldugildi og kristið siðferði. Sú breyting varð flokknum til góða. Viktor Orbán sýndi að hann náði vel til almúgans og hann varð forsætisráðherra Ungverjalands 1998, aðeins 35 ára að aldri.

Ný stjórnarskrá og breyttar kosningareglur

Fyrsta stjórnartímabilið var þó erfitt og árið 2002 tapaði flokkur hans illa fyrir sósíalistum og aftur fjórum árum síðar. En hann gafst ekki upp og náði kjöri árið 2010 og hefur haldið völdum alla tíð síðan. Með tvo-þriðju atkvæða bak við sigurinn hóf hann að breyta mörgu í ungversku þjóðfélagi, þar á meðal kynnti hann til sögunnar nýja stjórnarskrá sem studdi íhaldssamar hugmyndir hans um lýðræði. Einnig var kosningareglum breytt í hag flokks hans Fidesz, en flokkur hans hefur unnið með 2/3 atkvæða bæði 2014 og 2018.

Mikil andstaða við hælisleitendur

Gagnrýnendur Viktor Orbán segja að breytingar hans á stjórnsýslunni hafi tekið sjálfstæði dómstóla í burtu, hamlað sjálfstæði í akademískri orðræðu, múlbundið fjölmiðla og gert kosningakerfið þannig að því sé ekki treystandi lengur. Hann hefur komist upp á kant við forráðamenn í Evrópusambandinu, ekki síst vegna hatrammrar andstöðu í innflytjendamálum. Hann segist sjálfur verið varðhundur „hinnar kristnu Evrópu“ og setti upp landamæragirðingu 2015 og hefur takmarkað mjög réttinn til að sækja um hæli í landinu.

Viktor Orbán hefur blásið á alla gagnrýni Evrópusambandsins á ríkisstjórn sinni og segist einfaldlega vera að verja hagsmuni Ungverjalands.  Hann hefur líka átt í andstöðu við mið-hægri samtökin EPP, Samtökum fólksins í Evrópu, sem Fidesz, flokkur hans átti aðild að. Eftir að hafa búið við gagnrýni frá EPP ákvað Fidesz að ganga úr samtökunum 2021 og hefur síðan færst enn lengra til hægri á pólitíska skalanum.

Bannar tal um samkynhneigð

Lengst af valdatíð hans í Ungverjalandi hefur ekki skort á fjármagni frá Evrópusambandinu til Ungverjalands þar til síðasta sumar, þegar Evrópusambandið ákvað að samþykkja ekki 7,2 milljarða evra framlag til Ungverjalands til að mæta eftirleik kórónufaraldursins og var ákvörðun sambandsins skýrð með áhyggjum af spillingu í landinu og að þar væri ekki farið að lögum. Á síðasta ári voru sett lög sem bannaði allt tal um samkynhneigð í nálægð barna, sem vakti mikla reiði í sambandinu.

Atvinnuleysi minnkað og hagvöxtur batnað

En stuðningsmenn Viktor segja að undir hans stjórn hafi atvinnuleysi minnkað niður í 3,8% og hagvöxtur aukist í 7,1% árið 2021. Spillingastimpillinn hefur þó aðeins loðað við hann, sérstaklega í tengslum við gæluverkefni á borð við glæsilegan fótboltavöll í heimabæ hans Felcsut.

Talið er að næstu fjögur árin muni Viktor Orbán tryggja sig enn frekar í sessi og leggja alla áherslu á að erfitt verði að koma honum frá völdum í kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka