Bandaríkin ásamt hinum G7 ríkjunum og Evrópusambandinu munu banna allar nýjar fjárfestingar í Rússlandi á morgun er haft eftir heimildarmanni sem talaði við afp-fréttaveituna í dag.
Samræmdar aðgerðir til að refsa Rússlandi fyrir innrásina í Úkraínu og það sem virðist vera greinilegir stríðsglæpir munu færa refsiaðgerðirnar upp á enn hærra stig. Auk fjárfestingabanns munu auknar refsiaðgerðir verða lagðar á fjármálastofnanir og ríkisrekin fyrirtæki í Rússlandi, auk refsiaðgerða sem beinast að rússneskum embættismönnum og fjölskyldum þeirra.
Heimildarmaðurinn sagði að þessi aukna harka refsinga gegn Rússlandi væri vegna fregna um voðaverk Rússa gegn almennum borgurum í borginni Bútsja.
„Við vorum þegar viss um að Rússar væru að fremja stríðsglæpi í Úkraínu og fregnirnar frá Bútsja eru enn ein sönnunin um það,“ sagði heimildarmaðurinn.
Búast má við að nýju refsiaðgerðirnar auki enn á fjárhagsvandræði Rússlands sem er nú bæði fjárhagslega og tæknilega einangrað í samfélagi þjóðanna.
„Þessar aðgerðir munu hafa neikvæð áhrif á lykilþætti í ríkisvaldi Rússlands sem þeir finna fyrir strax og þannig er verið að reyna að gera þá ábyrga fyrir gjörðum sínum og einnig þjófastéttina sem fjármagnar stríðið.“ Heimildarmaðurinn spáði að efnahagur Rússa myndi fara niður um a.m.k. 15 prósent á þessu ári.