Ekki tilbúnir að hætta viðskiptum við Rússa strax

Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir mikilvægt að …
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir mikilvægt að viðhalda þrýstingi á Rússa. AFP/Frederick Florin

Bann við innflutningi kola er hluti af þeim nýju refsiaðgerðum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í dag gegn Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu.

Volodimír Selenskí hefur kallað eftir því að refsiaðgerðir verði hertar enn frekar eftir að fjöldi óbreyttra borgara fannst látinn, m.a. í fjöldagröfum, í útjaðri Kænugarðs eftir að rússneski herinn hörfaði þaðan. Hann er nú talinn vera að skipuleggja yfirtöku á Donbas-héraðinu í austurhluta Úkraínu.

„Rússland er að heyja grimmt, miskunnarlaust stríð, einnig gegn óbreyttum borgurum í Úkraínu. Við þurfum að viðhalda eins miklum þrýstingi og mögulegt er á þessum mikilvæga tímapunkti,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í myndbandsávarpi í dag.

Búist er við að bandarísk stjórnvöld tilkynni frekari refsiaðgerðir síðar í þessari viku.

Kaup á orku fjármagna stríðið

Mikill þrýstingur hefur verið á ríki Evrópu að draga úr viðskiptum við Rússa í orkugeiranum og stöðva þar með helsta tekjustreymi þeirra sem nýtist m.a. til að fjármagna stríðið.

Í aðgerðunum er einnig kveðið á um algjört viðskiptabann við fjóra stóra banka í Rússlandi, þar á meðal VTB sem er næststærsti lánveitandinn í landinu.

Þá vill Evrópusambandið einnig bæta við fleiri rússneskum vörum á þann lista sem eru bannaðir í ríkjum ESB, þar á meðal vodka og meina rússneskum skipum aðgang í evrópskar hafnir.

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar verður lögð fyrir aðildarríkin og standa vonir til um að hún verði samþykkt strax á morgun, þarf ákvörðunin að vera einróma til þess að hún fari í gegn.

Ekki hægt að skerða viðskipti strax

Hingað til hafa tillögur um að skerða kaup á orku af Rússum mætt mikilli mótstöðu frá ríkjum á borð við Þýskaland, Ítalíu og Austurríki, sem eru afar háð olíu og gasi frá Rússlandi.

Stjórnvöld í Þýskalandi sögðu í gær það ekki standa til boða fyrir Þjóðverja að stöðva kaup á gasi í bili og að slíkar aðgerðir þyrftu að bíða um stund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert