Volodimír Selenskí forseti Úkraínu ávarpaði í dag Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í fyrsta sinn frá því að innrásin hófst. Vill hann enn hertari refsiaðgerðir gegn Rússum en hann hefur nýlega sakað her þeirra um stríðsglæpi og tilraun til þjóðarmorðs eftir að hundruð almennra borgara fundust látnir í útjaðri Kænugarðs á þeim svæðum sem hersveitirnar höfðu yfirtekið.
„Refsiaðgerðirnar vegna fjöldamorði Rússa á óbreyttum borgurum verða að vera kraftmiklar,“ sagði Selenskí í gær en hann hefur nýlega farið í heimsókn í bæinn Bútsja þar sem voðaverkin áttu sér meðal annars stað. Þar lágu tugir almennra borgara látnir á víð og dreif á götum bæjarins. Hafa ljósmyndir og myndskeið úr bænum vakið upp óhug margra.
„Þurftu hundruð okkar fólks að deyja í þjáningu svo að leiðtogar einhverra Evrópuríkja gætu loksins skilið að rússneska ríkið eigi skilið alvarlegan þrýsting,“ spurði Selenskí.
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í dag fjöldamorðið í Bútsja vera hluti af herferð Rússa sem fælist í því að myrða, pynta og nauðga.
„Það sem við sáum í Bútsja er ekki tilviljunarkennd aðgerð hersveitar. Þetta er skipulögð herferð til að drepa, til að pynta, til að myrða, til að fremja grimmdarverk. Sönnunargögnin eru hér fyrir heiminn að sjá.“
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) óttast að fleiri ódæðisverk eigi eftir að uppgötvast á svæðum í Úkraínu sem rússneskar hersveitir hafa tekið yfir.
„Þegar og ef þeir munu draga hermenn sína til baka, og úkraínskir hermenn koma í staðinn, er ég hræddur um að fleiri fjöldagrafir, fleiri voðaverk og fleiri dæmi um stríðsglæpi komi í ljós,“ sagði Stoltenberg við blaðamenn.
Stoltenberg telur rússneskar hersveitir nú vera að undirbúa að taka yfir allt Donbas-héraðið í austurhluta Úkraínu og búa þannig til „göng“ frá Rússlandi og að Krímskaga.
Rússnesku hersveitirnar hafa hörfað frá svæðinu umhverfis Kænugarð en talið er að herinn sé nú að safna kröftum og hergögnum, og skipuleggja sig fyrir næstu aðgerð.
„Á næstu vikum gerum við ráð fyrir frekari sókn Rússa í austur- og suðurhluta Úkraínu í tilraun til að taka yfir allt Donbas og skapa landbrú til Krímskaga sem er hernuminn,“ sagði Stoltenberg.