Safna sönnunargögnum vegna fjöldamorðsins

Fregnir af fjöldamorðinu í Bútsja hafa vakið upp óhug meðal …
Fregnir af fjöldamorðinu í Bútsja hafa vakið upp óhug meðal margra. AFP

Bandaríska utanríkisráðuneytið segir Bandaríkin styðja fjölþjóðlegt teymi alþjóðlegra saksóknara sem hyggst fara til Úkraínu til að varðveita og greina sönnunargögn vegna fjöldamorða sem þar hafa verið framin.

Teymið fer til Úkraínu að beiðni yfirvalda þar í landi en markmiðið er að sækjast eftir refsiábyrgð Rússlands, segir talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, að því er fram kemur í frétt BBC.

„Þeir sem bera ábyrgð á þessum grimmdarverkum verða að bera ábyrgð sem og þeir sem fyrirskipuðu þau.“

Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins eru Bandaríkin að fylgjast með og skrásetja voðaverkin og deila upplýsingum með þeim stofnunum sem geta dregið þá til ábyrgðar.

Segir Pútín vera stríðsglæpamann

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur kallað Vladimír Pútín Rússlandsforseta stríðsglæpamann og telur hann að draga þurfi rússneska starfsbróður sinn fyrir dómstóla vegna voðaverkanna. Réttarhöld vegna glæpanna þurfa þó að bíða.

Síðustu daga hafa fregnir af grimmdarverkum rússneska hersins við Kænugarð vakið upp óhug í alþjóðasamfélaginu. Lík óbreyttra borgara lágu á víð og dreif um götur í bænum Bútsja norður af Kænugarði og ríflega fjögur hundruð lík hafa fundist í fjöldagröfum við höfuðborgina. Enn á ný er verið að ræða hvernig herða megi refsiaðgerðir gegn Rússlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert