„Miðað við þær upplýsingar sem við höfum um ástandið í Úkraínu er full ástæða til að telja að alvarlegri stríðsglæpir hafi verið framdir,“ var haft eftir sænska ákæruvaldinu, en Svíar hófu formlega rannsókn á stríðsglæpum í dag. Tekið var fram að á þessu stigi væri ekki búið að nefna neinn einstakling sem geranda.
„Við viljum tryggja að sönnunargögn liggi fyrir svo hægt verði að sækja mál, hvort sem það væri hér í Svíþjóð eða í öðru landi eða fyrir alþjóðlegum dómstólum eins og ICC."
Sænsk yfirvöld hvöttu alla sem væru fórnarlömb ofbeldis, eða hefðu orðið vitni að ofbeldi beint gegn almennum borgurum í Úkraínu að gefa sig fram, óháð því hvar glæpirnir hefðu átt sér stað.
Mikil pressa er í alþjóðasamfélaginu um rannsóknir á stríðsglæpum eftir að hryllilegar myndir af líkum í Bútsja litu dagsins ljós eftir að Rússar hörfuðu af vettvangi.
Yfirvöld í Moskvu hafa neitað öllum ásökunum og segja myndirnar falsaðar eða teknar eftir að þeir yfirgáfu borgina. En nýlegar gervihnattamyndir frá miðjum mars-mánuði teknar af Maxar Technologies virðast staðfesta að lík hafi legið um borgina á sömu stöðum og hermenn Úkraínuhers og blaðamenn fundu þau. Myndirnar eru teknar áður en Rússar yfirgáfu Bútsja.
Alþjóðadómstóllinn ICC hóf rannsókn á hugsanlegum stríðsglæpum í Úkraínu í síðasta mánuði en yfirsaksóknari dómstólsins í Haag í Hollandi, Karim Khan taldi strax 3. mars sl. að allt benti til þess að stríðsglæpir hefðu verið framdir í Úkraínu.