„Þið verðið að vita sannleikann“

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Forsætisráðherra Breta Boris Johnson ávarpaði rússnesku þjóðina beint í dag á myndbandi á Twitter og er rússneskur texti á myndbandinu. 

„Rússneska þjóðin verður að vita sannleikann, þið eigið rétt á því að vita hverjar eru staðreyndir málsins,“ sagði hann á rússnesku áður en hann hélt áfram ræðuna á ensku. Hann hélt áfram og sagði að það væri ekki skrýtið að rússnesk yfirvöld héldu sannleikanum frá þjóðinni, því fréttirnar frá voðaverkunum í Úkraínu væru slíkar að umheimurinn væri í áfalli yfir hryllingnum.

„Forseti ykkar veit að ef þið vissuð hvað væri að gerast mynduð þið ekki styðja þetta stríð,“ sagði forsætisráðherrann og vísaði í forseta Rússlands Vladimír Pútín.

Hann benti einnig á að hægt væri að nálgast alþjóðlegar fréttir með einfaldri vpn-tengingu til að komast að sannleikanum og það væri mikilvægt að líta ekki undan, heldur horfast í augu við sannleikann.

Hann endaði upptökuna að tala aftur á rússnesku þar sem hann sagði að Pútín hefði  verið ásakaður um stríðsglæpi. „En ég trúi því ekki að hann sé með umboð ykkar til þess,“ voru lokaorðin.

Ávarp Boris Johnson kemur á þeim tíma sem allar raddir sem styðja ekki stjórnvöldin í Kreml eru þögguð niður í Moskvu sífellt meiri hörku og allar opinberar upplýsingar um stríðið í Úkraínu kemur frá yfirvöldum.

Hér er hægt að sjá ræðuna á Twitter.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert