Vill útiloka Rússa úr Öryggisráðinu

Selesnkí ávarpar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í dag.
Selesnkí ávarpar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í dag. AFP/Spencer Platt

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu var ómyrkur í máli þegar hann ávarpaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í dag í gegnum fjarfundabúnað í fyrsta sinn frá því að stríðið hófst.

Þar fór hann fram á að Rússar yrðu látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum og að þeim yrði vísað úr Öryggisráðinu fyrir glæpina sem þeir hafa framið frá því að innrásin í Úkraínu hófst. Krafðist hann skjótra viðbragða Sameinuðu þjóðanna.

Selenskí vildi að Öryggisráðið, sem á að stuðla að friði á alþjóðavettvangi og öryggis, myndi fjarlægja Rússa úr ráðinu svo að þeir gætu ekki komið í veg fyrir ákvarðanir sem tengdust eigin yfirgangi og eigin stríði.

Drepa fólk sér til ánægju

Í ávarpinu vísaði Selenskí meðal annars til fjöldamorðanna sem voru framin í bænum Bútsja og auk þess sagði hann hundruð þúsunda Úkraínumanna hafa verið brottnumda af rússneskum hermönnum til Rússlands.

„Fólk var drepið í íbúðum sínum, húsum... Óbreyttir borgarar voru kramdir af skriðdrekum á meðan þeir sátu í bílum sínum á miðjum veginum, þeim til ánægju,“ kom fram í máli Selenskís.

„Ábyrgðin er óumflýjanleg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert