Beita refsiaðgerðum gegn dætrum Pútíns

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. AFP/Mikaíl Klímentív

Bandaríkin beita nú refsiaðgerðum sínum gegn innsta hring Vladimírs Pútín, þar á meðal dætrum hans.

Frá þessu greindi BBC í kvöld. Dætur Pútíns eru 35 og 36 ára gamlar.

Háttsettur embættismaður í stjórn Bidens segir Bandaríkin telja að dætur Pútíns gætu haft yfirráð yfir einhverjum af eignum hans.

„Við teljum að margar eignir Pútíns séu faldar hjá fjölskyldumeðlimum og þess vegna beinum við okkur að þeim,“ segir hann.

Fram kemur að Katerína, yngri dóttir Pútíns, sé tæknistjóri fyrirtækis sem styður við bakið á rússnesku ríkisstjórninni og varnaraðilum. María, systir hennar, er sögð leiða ríkisstyrkt verkefni á sviði erfðafræðirannsókna sem hefur fengið milljarða bandaríkjadala og er undir persónulegu eftirliti Pútíns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert