Innrásin mun stytta valdatíma Pútíns

Vladimír Pútín forseti Rússlands.
Vladimír Pútín forseti Rússlands. APF/ATTILA KISBENEDEK

Leonid Volkóv, helsti stuðningsmaður stjórnarandstæðingsins rússneska, Alexei Navalní, sagði við AFP-fréttastofuna í dag að innrás Rússa í Úkraínu hefði greinilega verið vanhugsuð af Vladimír Pútín Rússlandsforseta. „Pútín hefur klárlega stytt valdatímabil sitt,“ sagði hann og bætti við að „áform Pútíns um að sitja á valdastóli í Kreml til dauðadags væru nú talsvert ólíklegri.“

Rúss­neski stjórn­ar­and­stæðing­ur­inn Al­ex­ei Navalní og FBK-sam­tök­in hans hlutu mál­frels­is- og …
Rúss­neski stjórn­ar­and­stæðing­ur­inn Al­ex­ei Navalní og FBK-sam­tök­in hans hlutu mál­frels­is- og lýðræðis­verðlaun­in M100 Media 6.október 2021. Leonid Volkov bandamaður Navalní tók við verðlaununum fyrir hönd Navalní. Hann er hér á hægri hönd en vinstra megin er frjálslyndi demókratinn Christian Lindner. AFP

Volkóv, sem er hægri hönd Alexei Navalní ræddi við fréttastofuna á leiðtogafundinum um mannréttindi og lýðræði sem hófst í dag og sagði að innrásin væri dæmd til að mistakast.

Þúsundir hafa látið lífið og núna eru meira en 11 milljónir flóttamenn frá Úkraínu sem er mesti fjöldi frá seinni heimsstyrjöldinni.

Leonid Volkóv sagði að Pútín væri að „selja sumum áróður sinn,“ með það í huga að réttlæta innrásina, og þá sérstaklega í Rússlandi þar sem almenningur hefur lítinn aðgang að öðru en ríkisfjölmiðlum sem eru undir harðri stjórn yfirvalda.

Ólígarkarnir þurfa að snúa baki við Pútín

En Volkóv lagði áherslu á að rússnesku ólígarkarnir yrðu stöðugt óhressari með hrikalegt fjármálaástand landsins, fórnarlömbin og allar refsiaðgerðirnar. „Þeir munu fara að hugsa til stjórnarskipta eða kerfisbreytinga.“

Hann sagði að Vesturlönd ætti að huga meira að olígörkunum og reyna að ná til þeirra.  „Það ætti að reyna að bjóða þeim eitthvað í skiptum fyrir að yfirgefa Pútín,“ sagði hann og bætti við að hann tryði því að vinur sinn Alexei Navalní myndi losna úr fangelsi um leið og Pútín væri ekki við völd.

Er líka á svörtum lista

Navalní hefur setið í fangelsi frá því í byrjun ársins 2021 eftir að hann snéri til Moskvu frá Þýskalandi eftir að hafa verið byrlað novichok-tauga­eitur.  Hann sagði rússnesk stjórnvöld ábyrg fyrir að reyna að ráða hann af dögum, en talsmenn Kreml hafa neitað því.  Í síðasta mánuði var hann síðan dæmdur í níu ára fangelsi fyrir fjárdrátt. Volkóv gefur ekki mikið fyrir lögmæti dómsins.

„Navalní er pólitískur fangi Pútín og öll lagaþvælan táknar ekkert. Það er bara Pútín sem getur ákveðið hvort hann sé í fangelsi eða verði sleppt lausum.“ Hann segist upplifa að hann sé líka á svörtum lista Pútíns. „Ég reyni að lifa venjulegu lífi því það er í rauninni ekki hægt að verjast Novichok-eitri,” segir hann og lyftir upp tebolla úr pappa. „Það vinnur gegn manni  að lifa í ótta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert