Ivanka Trump spurð út í árásina 6. janúar 2021

Ivanka Trump ásamt föður sínum, Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, …
Ivanka Trump ásamt föður sínum, Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu fyrir tveimur árum. AFP

Ivanka Trump, sem er dóttir og fyrrverandi ráðgjafi Trumps Bandaríkjaforseta, sat í gær fyrir svörum bandarískrar þingnefndar sem ætlað er að rannsaka árásina sem var gerð á bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021. 

Óskað var eftir nærveru hennar þar sem nefndin kvaðst hafa undir höndum gögn sem bentu til þess að hún hefði þrábeðið föður sinn um að stöðva ofbeldið sem braust út í kjölfar áhlaupsins á þinghúsið. 

„Vitnisburður sem nefndin hefur aflað sér bendir til þess að hluti starfsliðs Hvíta hússins hafi ítrekað óskað eftir þinni aðstoð til að skerast í leikinn í þeim tilgangi að sannfæra Trump forseta til að taka á þeirri lögleysu sem var í gangi,“ sagði Bennie Thompson, formaður nefndarinnar, í bréfi sem hann skrifaði til Ivönku Trump í janúar. 

Rannsakendum er ætla að rannsaka tildrög árásarinnar og að hvaða leyti Trump forseti og aðstoðarmenn hans áttu þátt í að hvetja til áhlaupsins og árásarinnar, sem leiddi til þess öll starfsemi í þinghúsinu stöðvaðist þegar þingmenn voru þar samankomnir til að staðfesta niðurstöðu forsetakosninganna árið 2020. 

Nefndin hefur þegar tekið skýrslu af um 800 vitnum. Þeirra á meðal er Jared Kushner, sem er eiginmaður Ivönku Trumps og einnig fyrrverandi ráðgjafi Trumps forseta. Þá hafa nefndarmenn unnið sig í gegnum um 90.000 skjöl og farið yfir um 435 ábendingar sem hafa borist símleiðis. 

Thompson sagði í samtali við CNN-fréttastöðina að Trump hefði svarað spurningum nefndarmanna og að hún hefði mætt sjálfviljug. Nánar hefur ekki verið upplýst um það sem kom fram við skýrslutökuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert