Ógeðsleg aðkoma í íbúðir rússneskra hermanna

Myndir úr einu húsnæðinu sem rússneskir hermenn dvöldu í. Óskar …
Myndir úr einu húsnæðinu sem rússneskir hermenn dvöldu í. Óskar segir aðkomuna hafa verið ógeðslega og að lítilsvirðing gagnvart eigum Úkraínumanna hafi skinið í gegn. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Íbúar Bútsja sem ekki náðu að flýja bæinn hafa lifað við hreint helvíti síðasta mánuð. Ekkert rennandi vatn eða rafmagn er í bænum, og til að halda á sér hita hefur fólk þurft að sofa í öllum fötum undir sæng. Ekkert líf er á götum úti fyrir utan þau gæludýr sem hafa verið skilin eftir eða eigendur þeirra myrtir. 

Rússneskir hermenn hafa gjöreyðilagt heilu íbúðarhverfin og er bærinn ein stór brunarúst. Líkhúsin eru full af óbreyttum borgurum og erfiðlega gekk fyrir íbúa að færa lík þeirra látnu í fjöldagrafir eftir að rússneskir hermenn tóku upp á því að byrja að skjóta á þá á götum úti.

Þetta segir Óskar Hallgrímsson ljósmyndari sem búsettur er í Kænugarði en hann ásamt hópi blaðamanna heimsótti í gær bæinn sem hefur mikið verið í sviðsljósinu síðustu daga vegna fjöldamorðsins sem þar var framið. Þar náði hann tali af heimamönnum og sá með eigin augum þá eyðileggingu sem hefur átt sér stað síðustu vikur. 

Súrrealísk upplifun

Hryllingur blasti við þegar úkraínskir hermenn komu í bæinn Bútsja eftir að rússneski herinn hafði hörfað frá því svæði sem hann yfirtók í útjaðri Kænugarðs. Tugir óbreyttra borgara lágu látnir á víð og dreif um götur og ríflega fjögur hundruð lík hafa fundist í fjöldagröfum.

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu hefur sakað Rússa um stríðsglæpi og tilraun til þjóðarmorðs. Verið er að undirbúa rannsókn á því sem þarna fór fram og vill Selenskí að Rússar verði látnir bera ábyrgð á þessu fjöldamorði.

Óskar fékk að fylgja hópi vinstrisinnaðra aðgerðasinna, sem kalla sig operation solidarity, til Bútsja í gær, en þeir hafa verið að aðstoða úkraínska herinn með ýmsum hætti.

„Þetta er bara ein stór bruna­rúst

Að sögn Óskars var upplifunin súrrealísk og líkir hann henni við að vera staddur í tölvuleik. Gekk hann meðal annars fram hjá kílómetra langri röð skriðdreka sem búið var að sprengja. Þeir voru þó sem betur fer rússneskir, sem vakti örlitla ánægju.

„Þetta er bara ein stór brunarúst þessi borg,“ segir Óskar þegar hann lýsir fyrir blaðamanni sjóninni sem blasti við í bænum. 

„Þú heyrir ekki í neinum, það er engin umferð. Þú heyrir bara í vindinum og glerbrotum.“

Skriðdrekarnir sem búið var að sprengja. Á myndinni má einnig …
Skriðdrekarnir sem búið var að sprengja. Á myndinni má einnig sjá hunda á vergangi en mörg gæludýr voru skilin eftir í bænum Bútsja. Fóru Óskar og fleiri úr hópnum með mat til þeirra. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Sláandi að sjá fjöldagröf

Búið var að fjarlægja flest líkin sem lágu á götum borgarinnar þegar Óskar kom í gær, en eins og áður sagði höfðu þau legið á víð og dreif um borgina.

Að sögn þeirra heimamanna sem hópurinn náði tali af voru kæligeymslur í líkhúsum fullar vegna fjölda óbreyttra borgara sem rússneskir hermenn höfðu myrt. Íbúar á svæðinu hófu þá að flytja hina látnu í fjöldagrafir sem þeir grófu sjálfir.

Hvítur sendiferðabíll sem búið er að skrifa börn framan á …
Hvítur sendiferðabíll sem búið er að skrifa börn framan á húddið á rússnesku. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Í fyrstu leyfðu rússnesku hermennirnir fólkinu að fara óáreitt með líkin í grafirnar, það breyttist þó þegar líða tók á stríðið. 

„Síðan einn daginn hættu þeir að láta þá í friði og fóru að skjóta á þá. Skjóta fólkið sem var að fara með líkin í fjöldagrafirnar. Þeir skutu fólk á götunni.“

Í heimsókninni fór Óskar ásamt hópnum að tveimur fjöldagröfum. Hann segir aðkomuna hafa verið sláandi en enn mátti sjá lík þeirra sem Rússar höfðu myrt. 

Ekkert heilt

Höggið í heimsókninni kom þó ekki af alvöru fyrr en Óskar og blaðamennirnir heimsóttu nýbyggingahverfi í bænum. Stoppið þar sem átti einungis að vera í augnablik varð að klukkutíma.

Byssukúlur, brunnin tré, lestarstöð sem var búin að sprengja í tætlur og húsarústir blöstu við.

„Það var ekkert heilt sem við sáum. Neins staðar. Það hafa greinilega lent hundrað eldflaugar þarna, þvílíkur bardagi og ég bara veit ekki hvað og hvað.“

Fóru í íbúð sem Rússar gistu í

Þegar Óskar og hópurinn var að mynda eyðilegginguna kom maður til þeirra og vísaði þeim á íbúð þar sem rússneskir hermenn höfðu haldið sig til í. Óskar lýsir aðkomunni sem ógeðslegri, segir hann lítilsvirðingin gagnvart eigum og heimilum Úkraínumanna hafa verið sláandi.

„Þeir gjörsamlega fokking lifa eins og svín,“ segir hann.

„Það var bara íbúð eftir íbúð þar sem þú sást ólifnaðinn.“

Á neðri hæðinni í einu heimilinu gekk Óskar fram á uppblásna kynlífsdúkku sem lá á gólfinu sem búið var að binda plastpoka fyrir höfuðið.

Uppblásin kynlífsdúkka sem búið er að binda poka um höfuðið …
Uppblásin kynlífsdúkka sem búið er að binda poka um höfuðið á í íbúð sem rússneskir hermenn höfðu tekið undir sig í nýbyggingahverfi. Á gólfinu má einnig sjá sígarettustubba og annað rusl. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

„Kyrkja kynlífsdúkku, kæfa hana. Og síðan kom kona sem bjó þarna og segir „This is what they did to our girls.“ Þetta er bara það sem þeir gerðu,“ segir Óskar sem kveðst þá hafa fengið nóg af heimsókninni.

„Það er það sem er erfiðast við þetta stríð. Þetta endalausa kynferðisofbeldi sem er í gangi. Hópnauðgun eftir hópnauðgun. Það var mjög erfitt að sjá þetta.“

Óskar segir eiga eftir að koma í ljós hvað varð um fólkið sem þarna bjó. Mjög stór hluti hafi flúið bæinn en hundruð borgara hafa nú þegar fundist látnir eins og áður kom fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert