Þúsundir hafa undanfarna daga reynt að flýja Donbas-héruð í austurhluta Úkraínu nú þegar rússneski herinn er talinn skipuleggja yfirtöku á héraðinu.
Rússar sögðust í lok mars ætla að einbeita sér að „algjörri frelsun“ Donbas-héraðanna. Þetta kom fram í máli Sergei Rudskoi, hershöfðinga í rússneska hernum.
Varnarmálaráðuneytið útilokaði þó ekki frekari árásir á úkraínskar borgir og varaði við því að Rússar myndu bregðast við öllum tilraunum til að loka loftrýminu yfir Úkraínu sem ráðamenn í Úkraínu hafa ítrekað óskað eftir aðstoð NATO með að framkvæma.
Síðan þá hafa Rússar haldið árásum sínum á aðrar borgir áfram.
Fjölskyldur hafa myndað langar raðir undanfarna daga við aðalbrautarstöðina í borginni Kramatorsk í austurhluta Úkraínu. Þar hefur fólk einnig kvatt ástvini sem verða eftir.