Íbúar Karkív eru nú hvattir til að yfirgefa héraðið af yfirvöldum þar sem búist er við sókn Rússa í Donbas-héruðunum í austurhluta landsins. Karíne segist þrátt fyrir þetta ætla að halda kyrru fyrir í borginni og treystir á að her landsins verji borgina. Sergei segist búast við annarri bylgju flóttafólks frá svæðunum og að ákveðið svikalogn sé nú.
Við höldum áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borginni Ódessa í suðurhluta landsins, Sergei í Lvív í vesturhluta landsins og Karíne í borginni Karkív í austurhluta landsins, en þau deila með mbl.is upplifunum sínum og greina frá því hvað efst er í huga almennra borgara eftir að stríð braust út í landi þeirra.
Sergei í Lvív
Fertugasti og annar dagur stríðsins. Vaknaði klukkan sex í morgun við loftvarnaflauturnar – dagurinn byrjaður. Varði mestum hluta dagsins vinnandi í fjarvinnu, en fór líka í búðina. Það er loksins heimilt að selja bjór og vín aftur. Það er allavega eitthvað jákvætt í gangi!
Það komu næstum engar nýjar fréttir frá víglínunni. Rússar hafa flúið frá héraðinu í kringum Kænugarð, en ég held að það sé aðeins lognið á undan storminum og að framundan séu blóðugir bardagar um Donetsk og Luhansk héruðin. Ég ætla að spá annarri bylgju flóttafólks frá þessum svæðum.
Ég reyni að hugsa ekki um hið slæma og í dag ákvað ég að hlusta aðallega á létta tónlist og náði meira að segja að glugga í bók. Aftur mundi ég svo að það er orðið mjög langt síðan ég gekk eitthvað upp í fjöllunum og vonandi næ ég að fara þangað í sumar. Dagarnir líða annars mjög hratt, en við erum alltaf einum degi nær sigri.
Eiginkonan sendi mér nokkrar myndir af syninum og hann var svo hamingjusamur á þeim. Það er ánægjulegt að þau eru í góðu skapi saman.
Staðan: Loksins lítill bjór og smá snakk.
Jaroslav í Ódessu
Hefðbundna rútína dagsins var mjög stutt miðað við hefðbundna dagskrá. Minni vinna, en meiri útvistun til nýrra sjálfboðaliða. Síðan 28. mars höfum við keyrt út um 50-80 matarpakka á hverjum degi, en í dag náðum við að tengjast stærra neti sjálfboðaliða og náum þannig til stærra svæðis auk þess sem þetta einfaldar dreifingu. Vonandi mun þessi breyting hafa jákvæð áhrif á skjólstæðinga okkar.
Við bíðum einnig eftir fyrstu sendingu aðstoðar frá samstarfsaðila okkar í Englandi, henni Júlíu. Hún er frá Úkraínu og hjálpaði meðal annars ömmu sinni að komast frá Ódessu, þar sem hún hafði búið allt sitt líf. Amman er því miður ekki heilsuhraust, en hún er allavega komin á öruggan stað núna og undir hendur heilbrigðisstarfsfólks.
Við vonumst eftir því að lífið geti sem fyrst snúið aftur til fyrra horfs og íbúar Ódessu, nágrannar okkar og fjölskyldur geti komið aftur til síns heima. Við söknum ykkar allra!
Karíne í Karkív
Í morgun fór ég aftur út að ganga með hundinn, en næstum engir voru á ferli í garðinum. Í nótt voru gerðar 27 stórskotaárásir á Karkív og það er spenna í loftinu. Yfirvöld hvetja íbúa í Karkví-héraðinu að flýja í burtu því við vitum að rússnesku voðasveitirnar sem voru í Bútsja eru á leið til Karkív. Við hræðumst hins vegar ekki og erum fullviss um að hetjulegir hermenn okkar muni verja borgina.
Námið við Listaháskólann í Karkív (KSADA) er komið af stað aftur og ég held áfram að vinna að gráðunni minni. Námið fer fram í gegnum netið núna, sem og öll samskipti við kennarana. Þetta er svipað fyrirkomulag og í faraldrinum. Einn kennarinn er þessa stundina í austurrísku borginni Graz, en auk þess var einn nemandinn fyrir í borginni. Kennarinn sagði þegar hann kom til borgarinnar að honum hefði mætt samstöðuhópur með um 50 manns sem studdu málstað Úkraínu. Næsta dag var þessi hópur orðinn mun stærri og fólk gekk um með ýmsa fána. Það kom svo í ljós að þetta var hópur á vegum feminískra samtaka í borginni.
Það kom honum mest á óvart að einhver var með Sovétfána, en hér í Úkraínu eru táknmyndir sovéska kommúnistaflokksins, auk annarra tákna alræðisstjórna, bannaðar.
Kennarinn sagði okkur að það hefði komið honum á óvart hve fjölmennir þessir fundir væru, en sjónunum var meðal annars beint að voðaverkum Rússa, sem sprengja friðsamar borgir, fremja fjöldamorð, nauðga konum og jafnvel börnum.
Við höfum heyrt sögur af því að Rússar hafi komið með færanlega brennsluofna til Maríupol til að brenna lík íbúanna. Þetta er gert í þeim tilgangi að fela merki um stríðsglæpi þeirra. Á sama tíma heyrðum við að samstöðufundur hefði átt sér stað í Þýskalandi með málstað Rússa. Það er hræðilegt. Hvernig áttar fólk sig ekki á því að Rússar eru morðingjar?
Af hverju umbera sumir íbúar Evrópu glæpi Rússa? Því miður hefur tekist að dreifa rússneskum áróðri um heiminn á undanförnum árum. Rússar hafa greitt stuðningsaðilum sínum háar fjárhæðir og tekið þátt í spillingarmálum víða um heim. Rússar græða svo stórar upphæðir á sölu á gasi og olíu og þessa peninga nota þeir nú til að fjármagna herinn og ráðast á og drepa íbúa Úkraínu.
Rússneskir valdamenn hafa jafnvel opinberlega lýst yfir að Úkraína ætti ekki að vera til sem ríki og að eyða ætti öllum úkraínueinkennum. Þetta er markmið Rússa - að eyða Úkraínubúum sem þjóð. Eru peningar virkilega þess virði að það megi drepa fólk? Því miður finnur margt fólk ekki til með öðrum og sársauka þeirra, heldur eru þægindi þeirra það sem skiptir það mestu. Ég trúi því hins vegar að fólk muni vakna upp og láta af afskiptaleysi sínu.