Rúmlega 4,3 milljónir Úkraínumanna hafa flúið land frá því innrás Rússa hófst 24. febrúar, samkvæmt upplýsingum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Langflestir hafa flúið til Póllands eða um 2,5 milljónir. AFP-fréttastofan greinir frá.
Fjöldi flóttamanna í Evrópu hefur ekki verið meiri frá því í seinni heimstyrjöldinni.
Þá telur Alþjóða fólksflutningastofnunin að um 7,1 milljón Úkraínumanna til viðbótar hafi þurft að flýja heimili sín en séu enn í Úkraínu.
Samkvæmt þessum tölum hefur yfir fjórðungur úkraínsku þjóðarinnar þurft að flýja heimili sín, en fyrir innrásina bjuggu 37 milljónir manna á þeim svæðum í Úkraínu sem heyrðu undir úkraínsk stjórnvöld.
Konur og börn eru 90 prósent þeirra sem flúið hafa land en karlmenn á aldrinum 18 til 60 ára mega ekki fara úr landi vegna herskyldu.
„Fyrir fimm vikum áttu börn í Úkraínu heimili og rúm. Nú þurfa börnin að leita skjóls fyrir sprengingum og eitt af hverjum tveimur hafa þurft að flýja heimili sín,“ sagði talsmaður UNICEF.