Gerir ráð fyrir hörðum árásum á Donbas

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti býst við harðari árásum rússneskra hersveita á Donbas-héruðin í austurhluta Úkraínu í ljósi voðaverkana sem hafa verið framin í bænum Bútsja, nærri Kænugarði. 

„Þessu stríði mun því miður ekki ljúka á næstu dögum,“ sagði Macron í viðtali við RTL. 

Þá telur hann litlar líkur að diplómatísku samkomulagi verði náð við Vladimír Pútín Rússlandsforseta á næstunni. 

Rússneskar hersveitir hafa dregið sig tilbaka frá norðurhluta Úkraínu og telur Macron að það þýði að áhersla Rússa verði á að hertaka svæði í suður- og austurhluta landsins, meðal annars til þess að skapa landtengingu á milli Krímskaga og héraðanna Donetsk og Luhansk, sem eru á valdi rússneskra aðskilnaðarsinna.

9. maí verði dagur sigurs

„9. maí er þjóðhátíðardagur í Rússlandi og hernaðarlega mikilvægur dagur. Því er næstum víst að Pútín stefni á að 9. maí verði dagur sigurs,“ sagði Macron og vísaði til hátíðardagsins  9. maí árið 1945 sem Rússar marka sem sigur þeirra á þýskum nasistum í síðari heimstyrjöldinni. 

„Þeir munu einbeita sér að Donbas og við búumst við mjög erfiðum atburðum þar á næstu dögum og vikum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert