Segir ástandið í Borodianka mun verra en í Bútsja

Eyðileggingin er griðarleg í Borodianka og segir forseti Úkraínu að …
Eyðileggingin er griðarleg í Borodianka og segir forseti Úkraínu að ástandið þar sé mun verra en í Bútsja. Borgin er aðeins um 50 km norðaustur af Kænugarði. AFP/NICOLAS GARCIA

Voðaverk Rússa í bænum Borodianka, sem er skammt frá höfuðborg Úkraínu, Kænugarði, eru mun verri en í nálæga bænum Bútsja þar sem fjöldi almennra íbúa voru drepnir af hersveitum Rússa. Þetta sagði Volodimír Selenskí, for­seti Úkraínu, í daglegri ræðu sinni til íbúa landsins.

Rússneskir hermenn yfirgáfu Borodianka og aðra bæi í héraðinu í kringum Kænugarð fyrir um viku síðan. Sagði Selenskí að nú væri verið að fara í gegnum rústir bæjarins og að eyðilegging Rússa þar væri meiri en í Bútsja. Bætti hann við að jafnvel væru fleiri fórnarlömb þar.

Stórtækar vinnuvélar hafa verið fengnar til að færa brak úr …
Stórtækar vinnuvélar hafa verið fengnar til að færa brak úr heilu íbúðablokkunum sem hafa hrunið í bænum Borodianka. AFP/Aleksey Filippov

Yfirvöld í Úkraínu hafa sakað Rússa um aftökur á hundruðum almennra íbúa sem jafnvel hafi verið með hendur bundnar fyrir aftan bak, en slíkt gefur tilefni til að ætla að um aftökur hafi verið að ræða.

Fyrr í dag greindi Irína Venediktova, ríkissaksóknari í Úkraínu, frá því að viðbragðsaðilar hefðu fundið 26 lík undir tveimur íbúðabyggingum sem höfðu verið eyðilagðar. Sakaði hún Rússa einnig um að ráðast gegn almennum íbúum og sagði jafnframt að engin hernaðarlega mikilvæg skotmörk hefðu verið nærri. Tók hún fram að ómögulegt væri að áætlað strax hversu margir hefðu látist í bænum. Sagði Venediktova að Rússar hefðu notað klasasprengjur og skotið eldflaugum. Þá væru sönnunargögn um að Rússar hefðu framið stríðsglæpi út um allt.

Heilu fjölbýlishúsin eru gjöreyðilögð og mörg hrunin að hluta eða …
Heilu fjölbýlishúsin eru gjöreyðilögð og mörg hrunin að hluta eða miklu leyti. AFP/Genya SAVILOV

„Eina markmiðið var að skjóta á almenna íbúa, það eru engin hernaðarmannvirki hér í kring,“ sagði hún og bætti við að Rússar væru jafnframt sakaðir um kynferðisbrot gegn almennum borgurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert