Að minnsta kosti 39 eru látnir eftir að tveim eldflaugum var skotið á lestarstöð í Kramatorsk. Á meðal þeirra sem létust eru að minnsta kosti fjögur börn. Saksóknarar í Donetsk-héraði segja að um 4.000 óbreyttir borgarar hafi verið staddir á lestarstöðinni þegar árásin átti sér stað.
„Ég sá fólk útatað í blóði koma inn í lestarstöðina og fólk út um allt á jörðinni. Ég veit ekki ef þau voru bara slösuð eða dauð,“ sagði kona sem stödd var í stöðinni þegar árásin átti sér stað í viðtali við AFP.
Í vikunni hefur Kramatorsk orðið fyrir árásum Rússa, þó ekki af þeim mælikvarða sem aðrar borgir í austurhluta Úkraínu hafa orðið fyrir frá því að innrás Rússa hófst.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur alfarið neitað aðild Rússlands að árásinni og sakaði úkraínska þjóðernissinna um að hafa skotið eldflaugunum á lestarstöðina.
„Tilgangur árásar þjóðernissinna á lestarstöðina í Kramatorsk var að trufla flótta almennra borgara úr borginni til að nota þá sem „mennskan skjöld“ til að verja stöðu úkraínska hersins“, sagði ráðuneytið í yfirlýsingu.