Bretar auka aðstoð sína við Úkraínu

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Volodimír Selenskí funduðu í dag …
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Volodimír Selenskí funduðu í dag í Kænugarði. AFP/Stringer

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hét því í dag að senda meiri hergögn til Úkraínu og hefur Volodimír Selenskí forseti Úkraínu nú kallað eftir því að leiðtogar fleiri vestrænna ríkja fylgi að fordæmi hans.

Selenskí og Johnson funduðu í dag í Kænugarði en heimsókn forsætisráðherrans kom mörgum á óvart.

Að sögn breska forsætisráðherrans má þakka hetjulegri framkomu úkraínska forsetans og hugrekki úkraínsku þjóðarinnar fyrir að Vladimír Pútín Rússlandsforseta hafi ekki tekist að uppfylla hræðilegu markmið sín.

Mengað orðspor

„Það sem Pútín hefur gert á svæðum eins og Bútsja og Írpin eru stríðsglæpir sem hafa varanlega mengað orðspor hans og orðspor ríkisstjórnar hans,“ sagði Johnson þar sem hann stóð við hlið Selenskís. 

Þá sagði hann Breta ætla að bjóða fram aukna hernaðaraðstoð sem mun meðal annars felast í því að senda 120 brynvarin ökutæki og flugskeyti sem beina á gegn skipum.

Þetta bætist við þá aðstoð sem Bretar kynntu á gær þegar þeir lofuðu 800 flugskeytum og drónum. Þá sagði hann einnig að 500 milljónir bandaríkjadala væru væntanlegir fyrir tilstilli alþjóðlegrar fjáröflunar sem fór fram fyrir Úkraínu.

Heimsóknin óvænt

Í heimsókninni í Kænugarð sagði Johnson það vera forréttindi að hitta Selenskí í eigin persónu en ferðalag hans kom mörgum að óvörum þar sem ekki var búið að tilkynna um það fyrirfram. 

Að sögn Johnsons gerði hann það skýrt í heimsókninni að Bretar stæðu við bakið á Úkraínumönnum í þessu stríði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert