Imran Khan hefur verið vikið úr embætti forsætisráðherra Pakistan eftir að vantrauststillaga var samþykkt á pakistanska þinginu í dag.
Sardar Ayaz Sadiq, forseti þingsins, sagði að 174 hefðu greitt atkvæði með tillögunni og þar af leiðandi var vantrauststillagan samþykkt.
Enginn hefur setið heilt kjörtímabil í embætti forsætisráðherra Pakistan frá því að ríkið fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1947. Khan er þó fyrstur til þess að vera steypt af stóli með þessum hætti.
Ekki er enn ljóst hvenær þingið mun skipa nýjan forsætisráðherra en líklegt þykir að Shehbaz Sharif, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, verði valinn.
Kahn er 69 ára gamall og reyndi allt til þess að halda völdum, meðal annars að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Hæstiréttur dæmdi aðgerðir Kahn hins vegar ólöglegar og skipaði þinginu að koma aftur saman.