Gísli segir Texas taka saklausa konu af lífi

Gísli Guðjónsson er fremstur í sínu fagi og hafa álit …
Gísli Guðjónsson er fremstur í sínu fagi og hafa álit hans orðið til þess að hætt hefur verið við aftöku í Bandaríkjunum þrisvar sinnum. Árni Sæberg

Gísli Guðjónsson, prófessor í réttarsálfræði, veitir sérfræðiálit í máli Melissu Lucio, bandarískrar konu af spænskum uppruna, sem dæmd var til dauða fyrir tólf árum og stendur frammi fyrir aftöku í Texas í lok þessa mánaðar.

Grein eftir hann birtist á fréttamiðlinum independent þar sem hann staðhæfir að Texas sé að taka saklausa konu af lífi.

Gísli segir að málið sé eitt það átakanlegasta sem hann hefur augum litið á fjörutíu ára ferli sem réttarsálfræðingur. Það sé til votts um það hvernig sé hægt að beita þrýstingi og notfæra sér bága stöðu einstaklings svo þeir felli á sig sök.

Gísli er sérfræðingur í klínískri sálfræði og réttarsálfræði. Hann er prófessor við Háskólann í Reykjavík og prófessor emeritus við King's College í London.

Fréttablaðið hefur eftir Gísla að hætt hafi verið við dauðarefsingar í þremur bandarískum málum eftir hans aðkomu, en Gísli er einn fremsti sérfræðingur heims á sviði áreiðanleika játninga.

Langar yfirheyrslur tveimur tímum eftir andlát dóttur hennar

Melissa er 53 ára gömul fjórtán barna móðir sem bjó við sára fátækt í Texas. Í febrúar 2007 lést tveggja ára dóttir Melissu, en hún vaknaði ekki af síðdegisblundi. Hún var marin víða um líkamann og var Melissa handtekin tveimur klukkustundum eftir andlát barnsins.

Fimm lögreglumenn yfirheyrðu hana og stóðu yfirheyrslurnar yfir í fimm til sjö klukkustundir. Melissa neitaði ítrekað að hafa lagt hendur á dóttur sína en að lokum sagði hún: „Ætli ég hafi ekki gert þetta þá, ég ber á­byrgð á þessu.“

Sakfelld fyrir morð á dóttur sinni og dæmd til dauða

Læknisálit leiddi þó í ljós að barnið hefði að öllum líkindum látist úr heilaskaða. Annað barn Melissu sagði frá því í vitnisburði að systir þess hefði dottið niður brattar tröppur tveimur dögum áður. Kom það heim og saman við ályktun læknanna um að afleiðingar heilaskaðans hafi komið fram seinna.

Árið 2008 var Melissa sakfelld fyrir morð en að baki sakfellingunni lá umrædd játning úr yfirheyrslunni. Hlaut Melissa dauðadóm. Hún hafði aldrei orðið uppvís að ofbeldi og skýrslur af börnum hennar bentu ekki til þess að hún hefði nokkurn tíma beitt þau ofbeldi.

Guðmundar- og Geirfinns aðferðin

Við mat á játningu Melissu beitti Gísli aðferðarfræði sem hann kveðst hafa þróað í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Gengur hún út á það að draga upp þá áhættuþætti sem gefi til kynna hve áreiðanleg játning sé.

Gísli lítur í fyrsta lagi til þess hver sé bakgrunnur viðkomandi eða forsaga. Í öðru lagi skoðar hann einnig í hvaða samhengi verið sé að taka viðkomandi til yfirheyrslu.  Þá rannsakar hann, í þriðja lagi, yfirheyrslurnar sjálfar og að lokum tekur hann inn í matið persónulega þætti sem varða einstaklinginn sjálfan.

Þá lagði Gísli einnig tvö próf fyrir Melissu, annars vegar saknæmispróf og hins vegar undanlátspróf, en bæði prófin hefur Gísli þróað og voru þau lögð fyrir sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.

Árið 2019 kom út heimildarmynd um mál Melissu  og í kjölfarið jókst áhugi á málinu. Fjöldi þekktra einstaklinga, meðal annars Kim Kardashian raunveruleikastjarna og áhrifavaldur, hafa mótmælt aftökunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert